Innlent

Á­kærður fyrir á­rásir á kærustu til við­bótar við vændi og nauðgunar­til­raun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Málið er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Karlmaður sem sætir ákæru fyrir kaup á vændi, tilraun til nauðgunar og sérstaklega hættulega líkamsárás í júní í fyrra er sömuleiðis sakaður um ofbeldi í nánu sambandi á þessu ári. Málin hafa verið sameinuð og eru rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Í ákærunni sem snýr að ofbeldi í nánu sambandi kemur fram að karlmaðurinn hafi fimmtudagskvöld í apríl síðastliðnum veist með ofbeldi að kærustu sinni á heimili hennar í fjölbýlishúsi. Þar hafi hann rifið í hár hennar, hrint í gólfið, tekið utan um höfuð hennar og skellt í gólfið. Er hann sagður hafa kýlt kærustuna ítrekað í andlitið með krepptum hnefa og tekið hana hálstaki.

Konan hlaut margvíslega áverka við árásina svo sem bólgu og mar í kringum augu, yfir kinnbeinum beggja vegna, sprungna vör svo úr blæddi og eymsli víða á líkama.

Fjórum mánuðum síðar er karlmaðurinn sakaður um áþekka árás á kærustuna. Er hann sakaður um að hafa skellt konunni í gólfið, kýlt hana ítrekað í andlit og líkama með krepptum hnefa, tekið hana hálstaki aftan frá og hótað að drepa hana.

Hlaut konan bólgu og mar yfir hægra kinnbeini, eymsli yfir kjálka beggja vegna, yfirborðsáverka og mar á hálsi, bólgu og eymsli yfir nefhrygg auk fleiri eymsla. Þá blæddi úr nefi hennar og munni.

Eins og fyrr segir er mál héraðssaksóknara gegn manninum til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×