Innlent

Ferðakostnaður ríkisins skreppur saman í faraldrinum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Faraldurinn hefur dregið verulega úr ferðalögum ríkisstarfsmanna. 
Faraldurinn hefur dregið verulega úr ferðalögum ríkisstarfsmanna.  Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft þau áhrif að ferðakostnaður ríkisins lækkaði um 1,8 milljarða króna á milli ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu. Kostnaðurinn var þannig þrír milljarðar króna fyrstu níu mánuði ársins 2019 en á sama tímabili í ár stendur hann í 1,2 milljörðum. Lækkunina, sem nemur sextíu prósentum, má rekja til heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Í tilkynningunni segir að með ferðakostnaði sé átt við ferðalög og uppihald á ferðalögum jafnt á Íslandi sem og erlendis. Tölurnar ná til svokallaðra A-hluta stofnana en þær eru um 160 talsins, þar á meðal eru ráðuneytin og undirstofnanir þeirra, framhaldsskólar, háskólar, heilbrigðisstofnanir og sýslumanns- og lögreglustjóraembætti.

Ferðakostnaður HÍ, Gæslunnar og Landspítala lækkar um hálfan milljarð

Í sjálfu Stjórnarráðinu var lækkunin enn meiri, eða 71% á tímabilinu og lækkaði kostnaðurinn um 173 milljónir króna. Þannig fór ferðakostnaður ráðuneytanna úr 243 milljónum árið 2019 og niður í 70 milljónir á þessu ári. Mest varð lækkunin hjá Háskóla Íslands, Landspítala og hjá Landhelgisgæslunni en samtals nemur lækkun þessara þriggja stofnana rúmlega 500 milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×