Íslenski boltinn

Finnur Orri aftur í Breiðablik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Finnur Orri Margeirsson í fyrsta Evrópuleik Breiðabliks, gegn Motherwell 2010.
Finnur Orri Margeirsson í fyrsta Evrópuleik Breiðabliks, gegn Motherwell 2010. getty/Craig Halkett

Finnur Orri Margeirsson er genginn í raðir Breiðabliks frá KR. Hann snýr því aftur á heimaslóðir en Finnur hóf ferilinn með Blikum og lék með þeim til 2014.

Finnur var lykilmaður í liði Breiðabliks sem varð bikarmeistari 2009 og Íslandsmeistari árið eftir. Hann er tíundi leikjahæsti leikmaður í sögu Breiðabliks með 243 leiki og var um tíma fyrirliði liðsins.

„Það er frábært að fá Finn Orra aftur í Breiðablik þar sem hann á heima. Hann er mikill leiðtogi bæði innan og utan vallar og leikmaður sem á eftir að styrkja Blikaliðið verulega á næstu árum,“ segir Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.

Eftir stutt stopp hjá FH gekk Finnur í raðir Lillestrøm í Noregi og lék þar tímabilið 2015. Hann kom svo aftur heim og fór í KR. Finnur varð Íslandsmeistari með KR á þarsíðasta tímabili.

Hjá Breiðabliki hittir Finnur m.a. fyrir yngri bróður sinn, Viktor Örn, sem og félaga sína úr Íslands- og bikarmeistaraliðinu, þá Kristin Steindórsson, Elfar Frey Helgason og Andra Rafn Yeoman.

Finnur Orri, sem er 29 ára, hefur leikið 229 leiki í efstu deild og skorað eitt mark.

Breiðablik endaði í 4. sæti Pepsi Max-deildar karla á síðasta tímabili og náði Evrópusæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×