Íslenski boltinn

„Liggja nánast á hnjánum og biðja mig um að vera á­fram“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lasse Petry fagnar marki í sumar.
Lasse Petry fagnar marki í sumar. vísir/daníel

Lasse Petry, miðjumaður Vals, segir að Íslandsmeistararnir hafa boðinn honum nýjan samning en hann gæti snúið aftur heim til Danmerkur.

Lasse var mikilvægur hluti af Valsliðinu í sumar en samningur hans er nú á enda. Hann gerði tveggja ára samning við félagið við komuna í fyrra en Valsmenn hafa lagt nýtt samningstilboð á borðið.

„Þetta er erfið ákvörðun. Það eru fjölskylduhlutir sem toga mig heim en íþróttalegir hlutir sem lokka mig í að vera hérna áfram,“ sagði Petry í samtali við bold.dk.

„Þeir hafa boðið mér framlengingu og ég er að íhuga þetta. Félagið er ánægt með mig og einnig liðsfélagarnir. Þeir liggja nánast á hnjánum og vonast til þess að ég verði áfram,“ sagði Petry léttur. Hann gæti þó snúið aftur heim til Danmerkur.

„Að finna félag í Danmörku væri auðvitað mjög gott en þetta er erfið staða, einnig því félögin eru á fullu í þeirra tímabili. Ég hef spilað virkilega vel á leiktíðinni og það er margt sem ég þarf að íhuga.“

Lasse hefur spilað 46 leiki eftir komuna til Vals en hann glímt við mikil meiðsli á sínum ferli áður en hann snéri til Íslands. Það er því margt að íhuga fyrir þennan fyrrum leikmann FC Nordsjælland.

„Við höfum verið frábærir sem lið á þessari leiktíð og ég hef spilað flestar mínúturnar og verið mikilvægur hluti af liðinu. Ég hef verið óheppinn með meiðsli á ferlinum en nú er ég mættur aftur og nýt þess að spila. Ég er líklega í besta líkamlega forminu síðan ég var 21 árs. Að standa svo með bikar í lok mótsins er virkilega gott.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×