Íslenski boltinn

Skoðar möguleikana erlendis en útilokar ekki að vera áfram hjá Val

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron Bjarnason var ánægður með sumarið. Hann lék á alls oddi í Valsliðinu.
Aron Bjarnason var ánægður með sumarið. Hann lék á alls oddi í Valsliðinu. STÖÐ 2

Aron Bjarnason er ánægður með sumarið í Íslandsmeistaraliði Vals í Pepsi Max deild karla. Hann ætlar að skoða möguleikana erlendis en útilokar ekki að vera áfram á Hlíðarenda.

Aron mun fara til Ungverjaland í janúar en hann er samningsbundinn Újpest í Ungverjalandi. Hann var á láni hjá Íslandsmeisturunum í sumar.

„Ég á von á því. Ég er á samningi hér til áramóta svo ég býst við að fara út í janúar. Ég þarf að heyra í þeim á næstu dögum hvernig staðan er,“ sagði Aron í samtali við Guðjón Guðmundsson.

„Umhverfið var mjög fínt. Þetta er mjög fín aðstaða og fínustu þjálfarar. Það var ekki yfir neinu að kvarta. Það er mjög fínt að búa þarna úti.“

21 af þeim 25 sem eru í leikmannahópi Újpest greindust á dögunum með kórónuveiruna.

„Þetta er svakalegt ástand. Þeir hafa verið að leita eftir frestunum en sambandið úti hefur verið erfitt. Þeir ætla ekki að spila um helgina svo þetta er dálítið sérstakt,“ en hver var lykillinn að sigri Vals í sumar?

„Við erum með mjög góða leikmenn og góða blöndu í liðinu. Það voru flestir að skila framlagi í liðinu og spiluðum okkur vel saman. Þegar við unnum nokkra leiki í röð þá var enginn að fara stoppa okkur.“

„Það var langt síðan ég spilaði þegar ég kom heim, svo ég kom inn í nýtt lið en Heimir gaf mér traustið. Ég er mjög þakklátur fyrir það og náði að spila mig í gang. Heilt yfir var ég mjög sáttur við þetta.“

Hann segir að æfingarnar hjá Heimi hafi ekki verið verri en þær í Ungverjalandi. Þar sé þá meiri atvinnumannaumhverfi.

„Það er æft stíft hjá Heimi. Þær eru krefjandi og skila sér inn í leikina. Úti er þetta aðeins öðruvísi. Það er alltaf æft á morgnanna og umgjörðin meiri. Þú getur fengið meiri aðstoð með endurheimt og svoleiðis en æfingarnar hérna eru alveg tipp topp.“

„Mér líður mjög vel hérna. Ég kann vel við þjálfarana og aðstöðuna. Ég myndi alltaf skoða það en ég býst við að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni úti. Ég mun skoða þetta með umboðsmanninum en skoða fyrst stöðuna hjá Újpest þar sem ég er samningsbundinn og sjá hvernig staðan mín er þar. Það er búið að skipta um þjálfara og svona.“

Klippa: Sportpkakinn - Aron Bjarnason



Fleiri fréttir

Sjá meira


×