Hákon Daði Styrmisson, leikmaður ÍBV, hefur verið kallaður inn í íslenska handboltalandsliðið sem mætir Litháen í undankeppni EM á miðvikudaginn.
Hákon Daði kemur inn í hópinn í stað Odds Gretarssonar sem á ekki heimangengt af persónulegum ástæðum.
Guðmundur Guðmundsson hefur gert þrjár breytingar á landsliðshópnum undanfarna tvo daga. Í gær voru þeir Magnús Óli Magnússon og Kristján Örn Kristjánsson kallaðir inn í landsliðið í stað Ólafs Guðmundssonar og Arnórs Þórs Gunnarssonar.
Hákon Daði er 23 ára rétthentur hornamaður. Hann hóf ferilinn með ÍBV en gekk svo í raðir Hauka og varð Íslandsmeistari með liðinu 2016. Hann sneri svo aftur til ÍBV fyrir tveimur árum og varð bikarmeistari með liðinu á síðasta tímabili.
Hákon Daði var í stóru hlutverki í íslenska U-18 ára liðinu sem vann til bronsverðlauna á HM 2015 í Rússlandi en hefur ekki leikið fyrir A-landsliðið.
Þrátt fyrir þær hertu sóttvarnarreglur sem taka gildi á miðnætti fer leikur Íslands og Litháen fram á miðvikudaginn. Íslenski hópurinn kemur saman um helgina og æfir á mánudag og þriðjudag. Leikið verður fyrir luktum dyrum í Laugardalshöll á miðvikudaginn.