Innlent

Á­fengis­þjófur hótaði lög­reglu með að segja að hann væri með Co­vid-19

Atli Ísleifsson skrifar
Atvikið átti sér stað í Vínbúð í austurbæ Reykjavíkur.
Atvikið átti sér stað í Vínbúð í austurbæ Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út vegna manns sem væri að stela áfengi í verslun ÁTVR í austurbæ Reykjavíkur um klukkan 11 í morgun.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að maðurinn hafi sagt lögreglu að hann væri smitaður af Covid-19.

„Lögreglan færði manninn á lögreglustöðina þar sem málið fékk nánari skoðun. Ekkert frekar kom fram sem renndi stoðum undir það að maðurinn væri covid smitaður og er talið að hann hafi verið að halda þessu fram í einhverjum annarlegum tilgangi,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur segir frá því að á sjötta tímanum í morgun hafi verið tilkynnt um líkamsárás í austurbæ Reykjavíkur. Hafi lögregla rætt við báða aðila og var málið afgreitt á vettvangi.

Þá segir frá því að um klukkan hálf sjö í morgun hafi verið tilkynnt um innbrot í geymslur í Sunnusmára í Kópavogi. Tveir menn í appelsínugulum fatnaði hafi hins vegar komist undan þeim sem hringdi á lögreglu á hlaupum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×