Handbolti

Færeyingarnir eru orðnir alvöru KA-menn og hata Þór

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Áki Egilsnes og Allan Nordberg í viðtalinu við Henry Birgir Gunnarsson.
Áki Egilsnes og Allan Nordberg í viðtalinu við Henry Birgir Gunnarsson. Skjámynd/S2 Sport

Henry Birgir Gunnarsson og Seinni bylgjan heimsótti þá Áka Egilsnes og Allan Nordberg á Akureyri á dögunum og fékk meðal annars að vita það hvernig það væri að vera Færeyingur á Akureyri.

„Það er mjög gott að vera hérna og Ísland er mjög líkt Færeyjum,“ sagði Allan Nordberg sem spilar í hægra horninu hjá KA. En hvað kann Áki best við Akureyri?

„Fólkið og hvað allir eru jákvæðir hérna. Það er líka mjög gott að við megum æfa,“ sagði Áki Egilsnes sem spilar í stöðu hægri skyttu.

Áki Egilsnes er að vinna með handboltanum. „Ég er að vinna í skóla eftir hádegi en svo erum við bara að æfa fyrir hádegi. Það er alveg nóg að gera,“ sagði Áki.

„Ég er oft í golfi og mikið í tölvuleikjum þegar ég er ekki að æfa,“ sagði Allan.

Áki Egilsnes og Allan Nordberg skrifuðu báðir undir tveggja ára samning í fyrra. „Við verðum örugglega tvö ár í viðbót,“ sagði Áki.

„Við erum ekkert búnir að tala við önnur lið á Íslandi og okkur langar bara að spila í KA. Við erum orðnir alvöru KA-menn,“ sagði Allan og hata þeir þá Þór. Já segja þeir báðir.

Færeyingum hefur fjölgað í íslensku deildinni sem er til marks um uppgang í færeyska handboltanum.

„Það eru mjög margir sem eru að spila í útlöndum núna og landsliðið er að gera betur í Evrópu en áður,“ sagði Allan en hversu langt er í það að Færeyingar komist á stórmót í handbolta?

„Planið er að Færeyjar vilja komast á stórmót á næstu fjórum árum. Ungu strákarnir eru líka frábærir í Færeyjum og við bíðum allir eftir því að við komumst á stórmót,“ sagði Áki.

Það má sjá allt viðtalið við þá hér fyrir neðan.

Klippa: Áki Egilsnes og Allan Nordberg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×