Innlent

Allir á Vogi á leið í sýnatöku

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tveir hafa greinst með kórónuveiruna á sjúkrahúsinu Vogi síðan á laugardag.
Tveir hafa greinst með kórónuveiruna á sjúkrahúsinu Vogi síðan á laugardag. Vísir/Vilhelm

Allir starfsmenn og inniliggjandi sjúklingar á meðferðarsjúkrahúsunum Vogi og Vík fara í sýnatöku fyrir kórónuveirunni í dag og á morgun. Ef niðurstöður þeirrar sýnatöku reynast góðar hefjast innlagnir á Vog að nýju. Einn starfsmaður greindist með veiruna í gær en áður hafði sjúklingur greinst á laugardag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vogi nú í morgun. Sjúklingurinn sem greindist með veiruna á laugardag fór strax í einangrun og 17 sem voru á sömu deild eða útsettir á annan hátt voru sendir í sóttkví, auk þriggja starfsmanna.

Starfsmaður greindist svo smitaður af Covid-19 í gær. Einn starfsmaður fór í sóttkví vegna þess en engir sjúklingar.

Öllum innlögnum á Vog var frestað á sunnudag. Í dag og á morgun, 27. og 28. október, munu allir starfsmenn á Vogi og Vík, auk allra inniliggjandi sjúklinga, fara í sýnatöku. Ef „allt kemur vel út úr þeirri skimun“ treystir Vogur sér til að taka við nýjum innlögnum, að því er segir í tilkynningu. Það verði þó ekki fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudag, 29. október.

„Við hörmum að þurfa að fresta innlögnum en efst í huga okkar núna er að tryggja velferð sjúklinga og starfsmanna, og draga úr líkum á Covid-19 smiti eins og frekast er unnt,“ segir í tilkynningu.


Tengdar fréttir

Sjúk­lingur smitaður á Vogi

Sjúklingur á Vogi greindist smitaður af kórónuveirunni í dag. Þetta staðfestir yfirlæknir á Vogi í samtali við fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×