Skíðadrottningin Lindsey Vonn birti einlæga færslu á Instagram um helgina, þar sem hún sagði að það væri ógnvekjandi að birta sundfatamyndir, líka fyrir íþróttakonur. Ástæðan er neikvæðar gagnrýnisraddir, sem leyfa sér að setja út á líkama kvenna.
„Það eru hræðilegar athugasemdir og fréttir sem rífa niður líkama minn og ég viðurkenni að stundum særir það mig,“ skrifaði hún meðal annars í færslunni og birti með nokkrar sundfatamyndir. Einnig birti hún brot af athugasemdum sem fólk hefur skrifað um líkama hennar á netinu.
„Hún heldur að hún sé flottari en hún er... feit hné.“
„Settu þennan rass í tjald.“
„Ég er á sextugsaldri og fæddi tvö börn og ég lít betur út“
„Brjóstalaus“
Aldrei farið í lýtaaðgerð
Vonn segir að hún sé venjuleg manneskja og því myndist auðvitað fellingar á magann og appelsínuhúðin sjáist stundum líka.
„Ég man alltaf ótrúlegu hlutina sem líkaminn minn hefur hjálpað mér að gera í lífinu og ég er stolt af því hvað ég er sterk. Ég er ekki í stærð 0 og er alveg sama. Ég get lofað ykkur að ég „Photoshoppa“ aldrei myndirnar mínar og ég er stolt af því að hafa aldrei farið í lýtaaðgerð að neinu tagi. Ekkert bótox, ekkert fylliefni, engar aðgerðir. Ég er hundrað prósent náttúruleg og hundrað prósent Lindsey.“
Fyrrum Ólympíumeistarinn var einnig með skilaboð fyrir alla sem eru óöruggir eða leiðir yfir útlitinu. „Verið heilbrigð, verið sterk og elskið ykkur sama hvað aðrir segja.“
Hún þakkaði einnig öllum þeim sem hafa verið jákvæðir og sýnt henni stuðning.
„Höldum áfram þessari menningu líkamsvirðingar.“