Innlent

Rakningarteymið skoðaði ekki hvað fólk keypti á barnum

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Greiðslukortafærslur hafa verið nýttar til að rekja ferðir fólks í nokkrum tilvikum, meðal annars til að finna hverjir voru útsettir fyrir smiti á Irishman Pub.
Greiðslukortafærslur hafa verið nýttar til að rekja ferðir fólks í nokkrum tilvikum, meðal annars til að finna hverjir voru útsettir fyrir smiti á Irishman Pub. Vísir/Vilhelm

Ekki var farið inn í kortafærslur og skoðað hvað fólk var að kaupa þegar færslurnar voru notaðar við rakningu kórónuveirusmita. Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi allsherjar- og menntamálanefndar í morgun.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, og Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, komu fyrir allsherjar- og menntamálanefnd í morgun þar sem fjallað var um heimildir sóttvarnalæknis til aðgangs að persónuupplýsingum.

Líkt og fram hefur komið hafa greiðslukortafærslur  verið nýttar við smitrakningu í nokkrum tilvikum. Til að mynda til að komast að því hverjir voru útsettir fyrir smiti á Irishman Pub.

Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.Vísir/Vilhelm

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar, segist eftir fundinn telja að meðalhófs hafi verið gætt við aðgerðirnar. „Það kom í ljós að það var ekki farið inn í kortafærslurnar sjálfar þannig að það var ekki verið að rekja hvað fólk var að kaupa. Þær voru hins vegar notaðar til að finna fólkið sem var á staðnum,“ segir Páll og ítrekar að gera þurfi greinarmun á þessu.

Þá hafi forstjóri Persónuverndar greint frá því að sóttvarnaryfirvöld hafi haft tilskilið samráð við embættið í undirbúningi aðgerða.

Páll segir þetta flókið og viðkvæmt úrlausnarefni. Nauðsynlegt sé að taka umræðu þegar ríkisvaldið grípur til aðgerða sem hafa áhrif á stjórnarvarin mannréttindi fólks. „Ef farið hefði verið ofan í kortafærslurnar hefði það verið fyrir mér skýrt brot á meðalhófi en að nota kortin til að sjá hverjir voru á staðnum finnst mér í ljósi aðstæðna vera innan marka þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×