Dýrafjarðargöng verða opnuð á sunnudag, rúmlega þremur árum eftir að framkvæmdir hófust. Með göngunum styttist Vestfjarðavegur um 27,4 kílómetra. Opnunin verður með óhefðbundnu sniði vegna kórónuveirufaraldursins.
Vegurinn upp að nýju göngunum verður opnaður að morgni sunnudagsins 25. október áður en þau verða formlega opnuð, að því er kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Stutt athöfn fer fram í húsnæði Vegagerðarinnar í Reykjavík þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, flytur ræðu sem verður útvarpað í bíla sem bíða þess að aka göngin í fyrsta sinn. Hún hefst klukkan 14:00.
Göngin koma í staðinn fyrir veg yfir Hrafnseyrarheiði sem Vegagerðin segir hafa verið einn helsta farartálmann milli byggða á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum.
Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hófust í júlí árið 2017. Göngin sjálf eru 5,6 kílómetra löng. Vegagerðin segir að veglegri opnunarviðburður verði haldinn með rísandi sól þegar aðstæður í þjóðfélaginu leyfa.