Innlent

150 afbrigði veirunnar fundist við landamæraskimun

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason
Þórólfur Guðnason Vísir/Vilhelm

Á einum mánuði hafa ríflega 1700 manns smitast af kórónuveirunni hér á landi. Sóttvarnalæknir segir aðeins eitt afbrigði af veirunni í gangi eða hið svokallaða franska afbrigði.

Frá sextánda september hafa 1720 manns smitast af kórónuveirunni, langflestir á höfuðborgarsvæðinu. Tvö stór hópsmit komu upp kringum mánaðarmót og eftir það jukust smitin um helming. 

Vísbendingar eru nú um að faraldurinn sé aðeins á leið niður á við. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að frá miðjum ágúst hafi aðeins eitt afbrigði veirunnar fundist hér á landi, sem kallað hefur verið franska afbrigðið. 150 afbrigði hafi hins vegar fundist við landamæraskimun.

„Jú jú það er þannig ennþá sem sýnir það að sem betur fer erum við ekki að missa ný afbrigði inn í landið en það getur gerst en með aðgerðum á landamærum erum við að lágmarka þá áhættu,“ segir Þórólfur. 

Hann segir að stærsti hópurinn sem smitist núna sé á aldrinum 18-29 ára.

„Það voru eldri einstaklingar sem smituðust frekar í vetur. Þetta er búið að vera svona frá því í sumar í raun og veru. Þetta sýnir að hópurinn sem smitast er yngra fólk sem hópast saman, þá á líkamsræktarstöðvum, börum og veislum og þetta endurspeglar það bara.“ segir Þórólfur.

70 manns 70 ára og eldri eru nú í einangrun.

Það er sá hópur sem þarf að vernda sem mest því oft er fólk með hækkandi aldri líka komið með undirliggjandi sjúkdóma og því geta afleiðingarnar orðið slæmar ef það veikist,“ segir Þórólfur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×