Erlent

Átta milljónir kórónu­veiru­smita í Banda­ríkjunum

Sylvía Hall skrifar
Faraldurinn er í töluverðum vexti vestanhafs um þessar mundir og hefur metfjöldi tilfella verið staðfestur í mörgum ríkjum Bandaríkjanna undanfarna daga. 
Faraldurinn er í töluverðum vexti vestanhafs um þessar mundir og hefur metfjöldi tilfella verið staðfestur í mörgum ríkjum Bandaríkjanna undanfarna daga.  Vísir/Getty

Fjöldi staðfestra smita í Bandaríkjunum fór yfir átta milljónir á föstudag og fer þeim ört fjölgandi. Að meðaltali hafa 53 þúsund smit greinst á hverjum degi undanfarna vikuna og er það 55 prósent aukning undanfarin mánuð að því er fram kemur á vef CNN.

Þar er vísað til tölfræði John Hopkins-háskólans en samkvæmt tölum gærdagsins var um metfjölda smita að ræða í fjórum ríkjum; Idaho, Illinois, Norður-Karólínu og Wyoming. Ólíkt fyrri bylgjum faraldursins er fjölgunin að eiga sér stað í öllum landshlutum.

Þannig voru fleiri tilfelli staðfest í þrjátíu ríkjum þessa vikuna samanborið við vikuna áður. Fjórtán ríki náðu nýjum hæðum í fjölda greindra og þurftu fleiri á sjúkrahúsinnlögn að halda.

Hátt í 220 þúsund hafa látist af völdum kórónuveirunnar vestanhafs. 

Anthony Fauci, yfirmaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, er uggandi yfir þróuninni.AP/Alex Brandon

Óttast fleiri smit yfir vetrartímann

Dr. Anthony Fauci, yfirmaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna og einn helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna, segir þróunina uggvænlega fyrir komandi vetur. „Við erum á vondum stað núna. Við verðum að snúa þessari þróun við.“

Hann segist hafa trú á bandarísku þjóðinni og telur hana átta sig á því að stórt vandamál sé fyrir höndum. Til þess að geta haldið samfélaginu gangandi þurfi fólk að huga að sóttvörnum.

Fauci nefnir fimm hluti sem geta skipt sköpum í baráttunni við veiruna. Telur hann nauðsynlegt að fólk noti andlitsgrímur á almannafæri, viðhaldi fjarlægð frá öðrum, forðist hópamyndun, stundi útivist og þvo sér reglulega um hendurnar. Þannig sé hægt að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar.

„Þetta vandamál er of mikilvægt. Ég hef helgað lífi mínu í að berjast gegn smitsjúkdómum. Þetta er faraldur af sögulegri stærð sem við höfum ekki séð í 102 ár,“ sagði Fauci, sem ætlar sér að halda áfram baráttunni óháð því hver vinnur forsetakosningarnar í nóvember næstkomandi.


Tengdar fréttir

Kompás: Hvenær verður lífið eðlilegt aftur?

Hvenær fáum við bóluefni við kórónuveirunni? Þetta er spurning sem brunnið hefur á heimsbyggðinni frá því faraldurinn hófst. Þrátt fyrir stífar sóttvarnaaðgerðir er veiran enn þá á fleygiferð og eru vonir bundnar við að bóluefni muni geta fært líf okkar aftur í eðlilegra horf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×