Íslenski boltinn

Vinnur að stofnun umboðsskrifstofu fyrir fótboltakonur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorkell Máni Pétursson var um tíma þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar. Nú ætlar hann að hella sér út í umboðsmennsku fyrir íslenskar fótboltakonur.
Þorkell Máni Pétursson var um tíma þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar. Nú ætlar hann að hella sér út í umboðsmennsku fyrir íslenskar fótboltakonur. vísir/vilhelm

Þorkell Máni Pétursson vinnur nú að stofnun umboðsskrifstofu fyrir fótboltakonur. Hann greindi frá þessu í Einkalífinu á Vísi.

Auk þess að starfa sem útvarpsmaður er Máni sérfræðingur um Pepsi Max-deild karla á Stöð 2 Sport og hefur sinnt umboðsmennsku fyrir tónlistarmenn. Hann er m.a. með bræðurna Friðrik Dór og Jón Jónssyni á sínum snærum.

„Maður hefur séð þessa ótrúlegu vinnu sem konur hafa lagt í hlutina fyrir miklu minni frægð og miklu minni peninga. Það var komið að máli við mig og spurt hvort ég vildi ekki taka mig til og umba fyrir stelpur í fótbolta. Mér fannst það ágætis hugmynd,“ sagði Máni í Einkalífinu.

Hann sér sóknarfæri í kvennaboltanum og segir að íslenskum stelpum í atvinnumennsku muni fjölga mikið á næstum árum.

„Kvennaknattspyrna er stækkandi atvinnugrein og eftir þrjú til fimm ár verðum við eflaust farin að selja jafn margar stelpur og stráka út. Ég fékk Tönju Tómasdóttur til liðs við mig og nú er maður að taka fyrstu skrefin að því að búa til umboðsskrifstofu og bæta því við Paxal sem er umboðsskrifstofa fyrir tónlistamenn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×