Innlent

Vara við töfum hjá Sorpu og biðja fólk um að nýta virka daga

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hér má sjá bílaröð sem myndaðist við endurvinnslustöðina við Sævarhöfða í gær.
Hér má sjá bílaröð sem myndaðist við endurvinnslustöðina við Sævarhöfða í gær. SORPA

Búast má við því að Sorpuferðir íbúa höfuðborgarsvæðisins taki lengri tíma en venjulegt þykir meðan hertar samkomutakmarkanir eru í gildi á höfuðborgarsvæðinu. Vegna takmarkananna sem nú eru í gild mega mun færri vera inni á endurvinnslustöðvum en almennt er. Umtalsverðar raðir mynduðust við stöðvarnar í gær og búast má við að tafir verði einna mestar um helgar. Sökum aðkomu eru raðirnar og tafirnar mestar á Dalvegi, við Sævarhöfða og í Ánanaustum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sorpu. Þar er fólk beðið að nýta frekar virka daga til þess að fara á endurvinnslustöðvarnar og dreifa þannig álagi á stöðvarnar. Þá er fólk hvatt til þess að mæta helst eitt í bíl ef kostur er á, þannig sé hægt að hleypa fleirum í gegn um stöðvarnar.

„Við skiljum vel að fólk vilji nota tímann í samkomubanni til að taka til í geymslunni. En eins og staðan er núna verðum við að biðja fólk að hjálpa okkur að dreifa álaginu,“ er haft eftir Guðmundi Tryggva Ólafssyni, rekstrarstjóra endurvinnslustöðvar Sorpu, í tilkynningunni.

Þá er fólk hvatt til að mæta vel undirbúið á stöðvarnar til að forðast óþarfa tafir. Í því felst að fólk er beðið að vera búið að flokka endurvinnsluefni áður en á stöðvarnar er komið.

„SORPA vonar að fólk verði við þessum óskum og sýni aðstæðunum skilning og minnir á að við erum öll almannavarnir,“ segir í lok tilkynningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×