Innlent

Ein­staklingar á Vogi hlut­falls­lega eldri en síðustu ár

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Aldursdreifing þeirra sem lagst hafa inn á Vog frá janúar 2020 fram í ágúst er töluvert hærri en á sama tímabili árin 2017-2019. 
Aldursdreifing þeirra sem lagst hafa inn á Vog frá janúar 2020 fram í ágúst er töluvert hærri en á sama tímabili árin 2017-2019.  VÍSIR/VILHELM

Aldur þeirra sem lagst hafa inn á vog frá byrjun þessa árs fram í ágúst er hlutfallslega töluvert hærri en árin þrjú þar á undan. Færri hafa komið til innlagnar sem eru yngri en 40 ára. Innlögum hefur ekki fjölgað í ár en samkvæmt nýjum tölum frá SÁÁ er aldursdreifingin allt önnur en hefur verið.

Fjöldi einstaklinga sem lagst hafa inn á Vog á tímabilinu janúar til ágúst 2020 er minni en var að meðaltali á sama tímabili á árunum 2017-2019 í öllum aldurshópum. Aldursdreifingin hefur hins vegar breyst töluvert, og hefur einstaklingum undir 30 ára aldri fækkað hlutfallslega miðað við eldri einstaklinga.

Töluvert færri einstaklingar hafa lagst inn á Vog, í öllum aldurshópum, í ár miðað við sama tímabil árin 2017-2019.SÁÁ

Til að mynda voru um 8 prósent einstaklinga sem lögðust inn á Vog á árunum 2017-2019 yngri en 20 ára en hefur sú tala nú minnkað niður í um 5 prósent. Þá hefur hið sama gerst í aldurshópnum 20-29 ára, en hlutfall þeirra var um 27 prósent á árunum 2017-2019 en er nú um 23 prósent. Eldri einstaklingum hefur hins vegar fjölgað hlutfallslega.

Aldursdreifing þeirra sem lagst hafa inn á Vog í janúar-ágúst 2020 er töluvert hærri en á sama tímabili árin 2017-2019.SÁÁ

Þá hefur aldursdreifing einstaklinga í fyrstu komu á sjúkrahúsið Vog einnig breyst og rennir stoðum undir það sem áður er nefnt. Aldursdreifing þeirra sem lagst hafa inn er töluvert hærri í ár en árin á undan.

Aldursdreifing þeirra í fyrstu komu á Vog er hærri en síðustu ár.SÁÁ

Fram kemur í tilkynningu frá SÁÁ að það sem af er árs sé minni eftirspurn eftir innlögn á sjúkrahúsið Vog. Færri innlagnarbeiðnir hafi borist miðað við árin fimm á undan og stefnir í um 500 beiðna fækkun fyrir árið.

Þá hafi niðurskurður og samdráttur í starfsemi SÁÁ hvorki áhrif á innlagnir nýkomufólks né þeirra sem eru yngstir. Hóparnir fari ekki á biðlista og er því aðgengi að meðferðinni hið sama og áður. Lengi hafi fækkað í hópnum yngri en 25 ára, allt frá árinu 200, en þetta árið sé fækkunin enn meira áberandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×