Fótbolti

Ísak einn af efnilegustu leikmönnum heims að mati The Guardian

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar í íslenska U-21 árs landsliðinu mæta Ítalíu í undankeppni EM á morgun.
Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar í íslenska U-21 árs landsliðinu mæta Ítalíu í undankeppni EM á morgun. vísir/vilhelm

Ísak Bergmann Jóhannesson, leikmaður Norrköping, er einn af bestu ungu leikmönnum heims að mati The Guardian. 

Frá 2015 hefur The Guardian birt grein um 60 efnilegustu leikmenn heims. Greinin fyrir árið 2020 birtist í dag en þar er fjallað um leikmenn sem eru fæddir 2003 og eru því sautján ára.

Ísak er fulltrúi Íslands á listanum. Í umsögninni um Skagamanninn er fjallað um þá miklu og merkilegu fótboltaætt sem hann er af. Michael Yokhin, sem skrifar umsögnina, segir að Ísak gæti orðið stærsta stjarnan í þessari goðsagnakenndu fjölskyldu.

Ísak er sagður fjölhæfur miðjumaður með frábæran vinstri fót og að Ítalíumeistarar Juventus hafi sýnt honum áhuga. Hann hefur skorað þrjú mörk og gefið sex stoðsendingar í sænsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Á lista þessa árs yfir 60 bestu ungu leikmenn heims má m.a. finna son Fernandos Redondo, Federico, sem er miðjumaður eins og pabbi sinn. Sonur kólumbíska framherjans Juans Pablo Ángel, Tomás, er einnig á listanum.

Grein The Guardian um efnilegustu leikmenn heims má lesa með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×