Fótbolti

Segir að­eins tíu leik­menn rúmenska hópsins hafa fengið niður­stöður úr skimun

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nicolae Stanciu finnst athugavert hversu fáir leikmenn rúmenska landsliðshópsins hafi fengið niðurstöður úr skimun við Covid-19.
Nicolae Stanciu finnst athugavert hversu fáir leikmenn rúmenska landsliðshópsins hafi fengið niðurstöður úr skimun við Covid-19. Alex Nicodim/Getty Images

Nicolae Claudiu Stanciu, leikmaður Slavia Prag í Tékklandi sem og rúmenska landsliðsins sem mætir Íslandi annað kvöld, segir að enn hafi ekki allir leikmenn liðsins fengið niðurstöður úr skimun við Covid-19 sem liðið fór í við komuna hingað til lands.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Stanciu við rúmenska fjölmiðla fyrir leikinn á morgun. Leikurinn er hluti af umspili fyrir sæti á Evrópumótinu í knattspyrnu sem fer fram næsta sumar.

„Það hafa ekki allir fengið niðurstöður úr skimuninni sem við fórum í,“ sagði Stanciu við blaðamenn í kvöld. Fyrr í dag hafði rúmenska liðið neitað að gefa upp hvort einhver leikmaður liðsins hefði greinst með kórónuveiruna við komuna hingað til lands.

Hinn 27 ára gamli Stanciu er einn þeirra tíu leikmanna sem hafa fengið niðurstöðu, hann – líkt og hinir níu sem - er ekki smitaður. 

Leikmaðurinn telur mögulegt að um sé að ræða sálfræðihernað af hálfu íslenska liðsins. Að láta leikmenn bíða eftir niðurstöðum valdi þeim vanlíðan og áhyggjum. Þeim var sagt að það tæki fjóra til átta klukkustundir að fá niðurstöður en nú, næstum sólahring síðar, hefðu aðeins tíu leikmenn fengið niðurstöður.

Stanciu hefur átt fast sæti í liði Rúmeníu síðan árið 2016. Alls hefur hann leikið 39 A-landsleiki og skorað í þeim tíu mörk.

Leikur Íslands og Rúmeníu hefst klukkan 18.45 á morgun en leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport og á Stöð 2. Upphitun hefst á Stöð 2 Sport klukkan 17.45.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×