Handbolti

Reyndi að kynda upp í Seinni bylgju mönnum og þeir voru ekki hrifnir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Gunnar Einarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson ræddu viðtalið við Kristinn Björgúlfsson eftir tap ÍR á móti Fram.
Jóhann Gunnar Einarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson ræddu viðtalið við Kristinn Björgúlfsson eftir tap ÍR á móti Fram. Samsett/Skjámyndir/s2 Sport

Ummæli Kristins Björgúlfssonar, þjálfara ÍR liðsins í Olís deild karla, eftir tapið á móti Fram voru til umræðu í Seinni bylgjunni á laugardaginn og þjálfari ÍR fékk þar aðeins á baukinn frá Seinni bylgju mönnum

ÍR tapaði 27-24 á móti Fram og hefur þar með tapað fjórum fyrstu leikjum sínum á leiktíðinni. Eftir leikinn sagði Kristinn Björgúlfsson að ÍR-liðið hefði verið betra liðið allan leikinn.

„Mér finnst voðalega leiðinlegt að vera boðberi leiðinlegra tíðinda en Kiddi, nei, þið voruð ekki betri allan leikinn. Ásgeir, annars hefði þeir unnið og þeir eru lélegir þessar síðustu tíu mínútur,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar.

„Það er ekkert lið sem er miklu betra allan leikinn en tapar leiknum. Nú grunar mig að Kristinn Björgúlfsson sé að reyna að kynda í okkur og reyna að peppa okkur til að fá umtal um sig,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

„Honum tókst það,“ skaut Jóhann Gunnar Einarsson, sérfræðingur í Seinni bylgjunni, sposkur inn í en Ásgeir Örn hélt áfram.

„Þetta er ekki í lagi. Mér finnst þetta bara lélegt. Hann er bara með einhver trix í gangi. Ég skil ekkert í þessu og mér finnst þetta ekki gott,“ sagði Ásgeir Örn.

„Ég hef aldrei skilið það þegar menn segja að við spiluðum frábærlega en við nýttum ekki færin okkar. Það er ekki hægt að segja að hann sé frábær í handbolta en hann skorar aldrei mörk. Rosalega stór partur af því að vera gott lið er að skora úr færunum sínum. Að skjóta í markið. Þetta snýst dálítið um það,“ sagði Jóhann Gunnar.

„Ég hef aldrei sagt um körfuboltamann. Hann er frábær en bara hittir aldrei í körfuna. Hann er samt miklu betri en allir hinir. Þetta bara virkar ekki þannig,“ sagði Jóhann Gunnar en það má sjá ummæli Kristins og alla umræðuna hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×