Innlent

Segja leigubílstjóra hafa sýnt frekar slæma hegðun í umferðinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Við þessu var brugðist með því að veita nokkrum ökumönnum tiltal en fjórir voru kærðir fyrir gróf brot.
Við þessu var brugðist með því að veita nokkrum ökumönnum tiltal en fjórir voru kærðir fyrir gróf brot. Vísir/Vilhelm

Lögreglan segir leigubílstjóra hafa sýnt frekar slæma umferðarhegðun í miðborginni í gær og því hafi verið sérstakt eftirlit í miðborginni í gærkvöld og fram á nótt. Í tilkynningu segir að lögregluþjónar hafi horft á leigubílstjóra í eftirlitsmyndavélum og séð þá aka ítrekað eftir gangstéttum og göngugötum og þeir hafi sömuleiðis stöðvað á gatnamótum og truflað umferð.

Við þessu var brugðist með því að veita nokkrum ökumönnum tiltal en fjórir voru kærðir fyrir gróf brot.

Í tilkynningu segir að gangandi vegfarandi hafi kvartað til lögregluþjóna eftir að ökumaður leigubíls hafi ekki eftir göngugötu og gargaði á vegfarandann að „drulla sér í burtu af göngugötunni,“ eins go segir í tilkynningunni. Þar segir einnig að vegfarandinn hafi verið miður sín vegna atviksins og hann hafi ekki talið hegðun ökumannsins til fyrirmyndar.

„Lögreglan vill því benda á að það gilda sömu reglur fyrir atvinnuökumenn líkt og aðra ökumenn sem aka ökutækjum sínum. Að aka/stöðva á gangstéttum, aka eftir göngugötum eða trufla umferð með ýmsum hætti er ekki heimilt samkvæmt núgildandi umferðarlögum. Sér bílastæði eru fyrir leigubifreiðar á a.m.k. tveimur stöðum í miðborginni þar sem ætlast er til að notendur leigubifreiða komi að til að þiggja þjónustu leigubifreiða. Séu þessi bílastæði full af leigubifreiðum þá verða leigubílstjórar að nota nærliggjandi bílastæði sem ætlað er ökutækjum,“ segir í tilkynningunni.

Því er beint til atvinnuökumanna að haga akstri sínum þannig að þeir séu til fyrirmyndar í umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×