Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Halli er besti markvörður deildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haraldur Björnsson ver frá Steven Lennon úr dauðafæri.
Haraldur Björnsson ver frá Steven Lennon úr dauðafæri. vísir/hulda margrét

Rúnar Páll Sigmundsson, annar þjálfara Stjörnunnar, var ánægður að fá stig gegn FH í kvöld. Hilmar Árni Halldórsson skoraði jöfnunarmark Stjörnumanna þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Lokatölur 1-1.

„Heilt yfir er ég ánægður með spilamennsku okkar manna. Við áttum skilið að jafna þetta. Við vorum mjög öflugir,“ sagði Rúnar Páll í samtali við Vísi í leikslok.

Honum fannst Stjörnumenn eiga skilið að vinna leikinn á Samsung-vellinum í kvöld.

„Já, mér fannst það. Við fengum fín og opin færi eins og FH-ingarnir. En mér fannst við heilt yfir betri í dag og áttum skilið að vinna. Við sýndum karakter með því að jafna,“ sagði Rúnar Páll.

„Þetta var erfitt en við fengum frábær upphlaup í seinni hálfleik sem við áttum að nýta betur. Við fengum mjög góð færi.“

Stjörnumenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur en FH-ingar skoruðu svo gegn gangi leiksins. Garðbæingar sváfu þá á verðinum í aukaspyrnu Hafnfirðinga.

„Svona leikir vinnast á svona atriðum. Við lögðum hart að okkur að jafna leikinn en þú þarft að halda einbeitingu í þessum föstu leikatriðum. Menn eiga að dekka sína menn samkvæmt því sem lagt er upp með en það klikkaði,“ sagði Rúnar Páll.

Skömmu eftir mark FH slapp Steven Lennon í gegnum vörn Stjörnunnar en Haraldur Björnsson varði mjög vel og kom sínum mönnum til bjargar.

„Halli varði frábærlega og hann er búinn að sýna það í sumar að hann er besti markvörður deildarinnar,“ sagði Rúnar Páll að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×