Ítalska úrvalsdeildin er komin á fleygiferð og lærisveinar Antonio Conte buðu aftur til veislu. Þá vann Atalanta stórsigur á Lazio.
Inter Milan hóf leiktíðina á 4-3 sigri á Fiorentina. Í kvöld unnu þeir 5-2 stórsigur á Benevento á útivelli. Liðið hóf leikinn á besta máta en Romelu Lukaku kom þeim yfir strax á fyrstu mínútu.
Roberto Gagliardini kom Inter í 2-0 á 25. mínútu og þremur mínútur síðar hafði Lukaku skorað annað mark sitt og þriðja mark Inter. Gianluca Caprari minnkaði muninn fyrir heimamenn á 34. mínútu en Achraf Hakimi kom Inter aftur þremur mörkum yfir áður en fyrri hálfleikur var úti.
One goal, one assist in 45 minutes.
— B/R Football (@brfootball) September 30, 2020
Inter have a gem pic.twitter.com/a81HGtjrTi
Lautaro Martinez bætti fimmta marki Inter við í síðari hálfleik en Caprari minnkaði muninn að nýju þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Þar með lauk markasúpu dagsins en Inter vann 5-2 sigur í frábærum leik.
Í Róm mættust Lazio og Atalanta. Robin Gosens kom gestunum yfir strax eftir tíu mínútna leik og Hans Hataboer bætti við öðru marki þegar rúmur hálftími var liðinn. Gestirnir voru þó ekki hættir og Alejandro Gomez skoraði þriðja mark þeirra áður en flautað var til hálfleiks.
Lazio því 3-0 undir í hálfleik en Felipe Caicedo minnkaði muninn fyrir heimamenn á 57. mínútu. Fjórum mínútum síðar skoraði Gomez sitt annað mark og fjórða mark Atalanta.

Lokatölur 4-1 Atlanta í vil sem heldur áfram að vera eitt skemmtilegasta lið Evrópu. Lazio virðist hins vegar ekki ætla að ógna toppliðum deildarinnar verulega á þessari leiktíð.
Þá unnu nýliðar Spezia góðan 2-0 útisigur á Udinese.
Þegar tveimur umferðum er lokið eru Napoli, Atalanta, Inter, AC Milan og Hellas Verona öll með fullt hús stiga. Lazio hafa á sama tíma unnið einn og tapað einum.