Handbolti

Fyrsti sigur Þórsara í efstu deild í fjórtán ár og Mosfellingar á toppinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveinn Andri Sveinsson, leikmaður Aftureldingar, reynir að brjótast í gegnum vörn Selfoss.
Sveinn Andri Sveinsson, leikmaður Aftureldingar, reynir að brjótast í gegnum vörn Selfoss. vísir/hulda margrét

Þriðja umferð Olís-deild karla í handbolta hófst í gær með þremur leikjum. Þór vann ÍR, Afturelding lagði Selfoss að velli og FH sigraði Fram.

Svava Kristín Grétarsdóttir fór yfir leiki gærkvöldsins en yfirferð hennar má sjá hér fyrir neðan.

Þórsarar gerðu góða ferð í Austurbergið og unnu 21-26 sigur. Þetta var fyrsti sigur Þórs í Olís-deildinni í vetur og fyrsti sigur liðsins í efstu deild síðan 2006. ÍR hefur aftur á móti tapað öllum þremur leikjum sínum á tímabilinu.

Ihor Kopyshynskyi skoraði tíu mörk fyrir Þór og Valþór Atli Guðrúnarson fimm. Hrannar Ingi Jóhannsson var markahæstur hjá ÍR með átta mörk.

Afturelding tyllti sér á topp Olís-deildarinnar með 26-24 sigri á Selfossi í Mosfellsbænum. Guðmundur Árni Ólafsson sneri aftur í lið Aftureldingar og skoraði fimm mörk líkt og Úlfar Páll Monsi Þórðarson. Mosfellingar hafa unnið tvo leiki og gert eitt jafntefli.

Guðmundur Hólmar Helgason skoraði sjö mörk fyrir Selfoss og Atli Ævar Ingólfsson fimm. Selfyssingar eru með þrjú stig.

FH lagði grunninn að 28-22 sigri á Fram með góðum fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 15-10, FH-ingum í vil. Þetta var annar sigur þeirra í röð. Frammarar bíða hins vegar enn eftir sínum fyrsta sigri á tímabilinu.

Ásbjörn Friðriksson skoraði sex mörk fyrir FH og þeir Leonharð Þorgeir Harðarson, Ágúst Birgisson og Einar Örn Sindrason voru allir með fimm mörk. Vilhelm Poulsen skoraði sjö mörk fyrir Fram.

Hér fyrir neðan má sjá Svövu Kristínu Grétarsdóttur fara yfir leiki gærdagsins.


Tengdar fréttir

Kristinn: Ég er of feitur til þess að vera inn á

„Við vorum bara lélegir, við erum þar sem við eigum heima,” sagði Kristinn Björgúlfsson, þjálfari ÍR var vonsvikinn eftir tap á móti Þór Ak. í Austurbergi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×