Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu hefur beðið granna sína í suðri formlega afsökunar á drápinu á suður-kóreskum embættismanni á dögunum.
Kim sendi forseta Suður-Kóreu, Moon Jae-in, bréf þar sem segir að atvikið hefði ekki átt að eiga sér stað.
Suður-Kóreumaðurinn virðist hafa verið að reyna að flýja yfir til Norður-Kóreu þegar norðurkóreskir hermenn skutu á hann þar sem var á floti í sjónum undan ströndum landsins.
Mikil landamæragæsla er á landamærum landanna tveggja og segir sagan að nú um stundir hafi norðurkóreskir hermenn fengið skipun um að skjóta alla á færi sem reyna að komast inn í landið, til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar.