Innlent

Hafa þurft að fresta hátt í fimm­tíu að­gerðum vegna smita á spítalanum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar

Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala, segir það hafa töluverð áhrif á starfsemi spítalans að um 200 starfsmenn hans séu annað hvort í einangrun eða sóttkví eftir að fjöldi kórónuveirusmita greindist meðal starfsfólks. Fresta hafi þurft 46 skurðaðgerðum í þessari viku vegna þessa.

„Þetta hefur töluverð áhrif á starfsemina og þetta er umtalsverður fjöldi sem er frá vinnu. Þetta hefur kannski mest áhrif á skurðþjónustuna af því að þar eru nokkrir sem eru bæði í einangrun og aðrir í sóttkví,“ sagði Hlíf í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Því miður höfum við þurft að freta aðgerðum núna þessa vikuna. Við höfum frestað alls fjörutíu og sex, það sem við köllum, valaðgerðum sem eru ekki lífsógnandi aðgerðir en nauðsynlegar samt en geta beðið. En við höfum haldið öllum bráðaaðgerðum áfram.“

Hún segir ómögulegt að segja hvenær starfsemi verður komin í samt lag aftur. Þá hafi engir sjúklingar smitast af veirunni á spítalanum.

„Hún er ólíkindatól þessi veira eins og við höfum séð og fyrir viku síðan héldum við að við værum bara í góðum málum. Núna eru töluvert margir að fara í skimun bæði í dag og næstu daga og það leiðir í ljós hver staðan er hjá okkur eftir helgi.


Tengdar fréttir

Þrjátíu starfsmenn smitaðir

Þrjátíu starfsmenn Landspítala eru í einangrun með kórónuveiruna og 176 eru í sóttkví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×