Heimir Guðjónsson hefur unnið fleiri leiki og fleiri Íslandsmeistaratitla en allir þjálfarar í nútíma fótbolta á Íslandi en í dag getur hann náð því sem honum hefur aðeins tekist einu sinni áður í efstu deild á Íslandi.
Valsmenn geta í dag unnið sinn tíunda leik í röð í Pepsi Max deild karla og um leið nánast tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn þegar þeir sækja FH-inga heim í uppgjöri tveggja efstu liða Pepsi Max deildar karla.
Leikurinn hefst klukkan 16.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, er á góðri leið með því að gera lið að Íslandsmeisturum í sjötta sinn. Í aðeins einum af hinum fimm Íslandsmeistaratitlunum hefur lið hans unnið fleiri deildarleiki í röð en Valsmenn í sumar.
Valur er búið að vinna níu deildarleiki í röð undir stjórn Heimis en þetta er lengsta sigurganga liðs undir hans stjórn í ellefu ár.
Valsliðið vann „bara“ þrjá af fyrstu sex leikjum sínum í Pepsi Max deildinni þar af töpuðu bæði heimaleikir á móti KR og ÍA. Valur tapaði síðast stigum í Pepsi Max deildinni í markalausu jafntefli á móti Stjörnunni 13. júlí síðastliðinn. Liðið vann næsta leik á móti Breiðabliki á útivelli og hefur ekki litið til baka síðan.
Lengsta sigurganga liðs undir stjórn Heimis Guðjónssonar eru ellefu sigrar í röð sumarið 2009. FH tapaði þá á móti Keflavík í fyrsta leik en svaraði því með því að vinna ellefu næstu leiki sína. Liðið gerði jafntefli við Keflavík í tólfta leiknum og lék alls fjórtán leiki í röð án þess að tapa.
Hér fyrir neðan má sjá lengstu sigurgöngur liða Heimis Guðjónssonar í efstu deild á Íslandi.
- Flestir deildarsigrar í röð hjá liðum Heimis Guðjónssonar:
- 11 sigrar í röð hjá FH (14. maí til 18. júlí 2009)
- 9 sigrar í röð hjá Val (19. júlí 2020 og er enn í gangi)
- 7 sigrar í röð hjá FH (28. júlí til 20. september 2015)
- 6 sigrar í röð hjá FH (22. ágúst til 25. september 2010)
- 5 sigrar í röð hjá FH (25. júlí til 29. ágúst 2011)
- 4 sigrar í röð hjá FH (20. júlí til 17. ágúst 2008)
- 4 sigrar í röð hjá FH (22. júlí til 23. ágúst 2012)
- 4 sigrar í röð hjá FH (20. ágúst til 18. september 2014)
- Lengstu sigurgöngu liða Heimis Guðjónssonar á hverju tímabili:
- FH 2008 - Íslandsmeistari - 4 sigrar í röð (20. júlí til 17. ágúst)
- FH 2009 - Íslandsmeistari - 11 sigrar í röð (14. maí til 18. júlí)
- FH 2010 - Silfurverðlaun - 6 sigrar í röð (22. ágúst til 25. september)
- FH 2011 - Silfurverðlaun - 5 sigrar í röð (25. júlí til 29. ágúst)
- FH 2012 - Íslandsmeistari - 4 sigrar í röð (22. júlí til 23. ágúst)
- FH 2013 - Silfurverðlaun - 3 sigrar í röð (20. júlí til 11. ágúst)
- FH 2014 - Silfurverðlaun - 4 sigrar í röð (20. ágúst til 18. september)
- FH 2015 - Íslandsmeistari - 7 sigrar í röð (28. júlí til 20. september)
- FH 2016 - Íslandsmeistari - 3 sigrar í röð (Tvisvar sinnum, í júní og í ágúst)
- FH 2017 - Þriðja sætið - 3 sigrar í röð (10. september til 21. september)
- Valur 2020 - Óklárað mót - 9 sigrar í röð (19. júlí 2020 og er enn í gangi)