Stærsta alþjóðlega tilraunin með bóluefni gegn Covid-19, sjúkdómnum sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur, til þessa er hafin í Bandaríkjunum. Til stendur að fá sextíu þúsund sjálfboðaliða til að taka þátt í rannsókninni á bóluefninu sem er það eina sem er í þróun í Bandaríkjunum sem er gefið í einum skammti.
Rannsóknin er á vegum stórfyrirtækisins Johnson & Johnson, að sögn AP-fréttastofunnar. Donald Trump Bandaríkjaforseti er afar spenntur fyrir henni og hefur tíst og áframtíst ítrekað um hana síðasta sólarhringinn. Krafðist hann þess að Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) hefði hraðar hendur.
Ásakanir hafa verið um að Trump og ríkisstjórn hans reyni nú að blása upp möguleikann á að bóluefni við veikinni sé á næsta leiti í aðdraganda forsetakosninga í nóvember. Stephen Hahn, forstjóri FDA, fullyrðir að það verði vísindamenn en ekki stjórnmálamenn sem ákveði hvort að bóluefni standist kröfur um öryggi og virkni.
„Vísindin munu lýsa okkur veginn. FDA mun ekki leyfa nokkurn þrýsting frá nokkrum sem breytir því. Ég mun setja hagsmuni bandarísku þjóðarinnar ofar öllum öðrum,“ segir Hahn.
Trump hefur beitt stofnanir alríkisins miklum þrýstingi vegna bóluefnis og faraldursins almennt að undanförnu. Þannig setti hann ofan í við forstjóra Sóttvarnastofnunarinnar um mikilvægi grímunotkunar og hvenær bóluefni gæti verið væntanlegt á dögunum.
Anthony Fauci, helsti sóttvarnasérfræðingur ríkisstjórnar Trump, segist hóflega bjartsýnn á að öruggt og virkt bóluefni sé væntanlegt þó að ekki sé á vísan að róa með það. Staðhæfir hann að menn muni ekki stytta sér leið við tilraunir með möguleg bóluefni.
Fleiri bandarísk lyfjafyrirtæki vinna að þróun bóluefnis, þar á meðal AstraZeneca. Þau bóluefni eru gefin í tveimur skömmtum. Mögulegt bóluefni Johnson & Johnson er aðeins gefið í einum skammti og er sagt byggja á grunni ebólubóluefnis. Paul Stoffels, aðalvísindamaður Johnson & Johnson, segir að niðurstöður gætu legið fyrir snemma á næsta ári.