Erlent

Gunnar gekk út þegar blóði drifnar myndir voru sýndar

Atli Ísleifsson skrifar
Frá vettvangi í Mehamn laugardaginn 27. apríl.
Frá vettvangi í Mehamn laugardaginn 27. apríl. TV2/Christoffer Robin Jensen

Gunnar Jóhann Gunnarsson fékk heimild frá dómara að yfirgefa dómsalinn í Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í Noregi í morgun þegar sýndar voru myndir lögreglu frá blóðugum vettvangi drápsins.

Réttarhöld yfir Gunnari héldu áfram í morgun en hann er ákærður fyrir að hafa banað hálfbróður sínum, Gísla Þór Þórarinssyni, í norska bænum Mehamn í apríl á síðasta ári.

Staðarmiðillinn iFinnmark segir frá því að mikið magn blóðs hafi sést á þeim myndum sem sýndar voru í dómsal. Eftir að búið var að sýna nokkrar myndir þá hafi Gunnar beðið um heimild til að yfirgefa salinn. Dómari varð við því.

Mikið blóð á vettvangi

Lögreglumaðurinn Arvid Bjerkåsen, sem bar vitni í morgun, hélt að því loknu áfram að segja frá aðkomunni á heimili Gísla Þórs þar sem hann fannst látinn. Sagði hann blóð hafa verið á bæði hurðum og hurðahúnum. 

„Það var blóð á hlutfallslega stóru svæði. Það kann að koma heim og saman við liggjandi mann sem hafi reynt að komast út, til dæmis til að kalla á hjálp.“

Bjerkåsen sagði ennfremur að blætt hafi úr slagæð Gísla Þórs sem skýri þetta mikla blóðmagn á gólfi og veggjum. Benti hann ennfremur á að blóðið á veggjunum bendi til að til átaka hafi komið. Það passi við orð ákærða.

Fór að hlaða byssuna á ný

Bjerkåsen hélt áfram og sagði að ákærði virðist hafa gengið um í íbúðinni, eftir að skotunum hafi verið hleypt af. Eitt skotið hafi hæft Gísla en annað fór í vegginn. Blóð hafi verið á sokkum, skóm, buxum og skyrtu Gunnars.

Lögreglumaðurinn sagði að spor sýni að ákærði hafi svo farið inn í eitt svefnherbergjanna. Gunnar hefur sjálfur sagt við skýrslutöku að hann hafi farið þar inn til að hlaða haglabyssuna að nýju, með það í hyggju að svipta sig lífi.

Leituðu til fingrafarasérfræðings

Í frétt iFinnmark segir að við rannsókn málsins hafi lögregla leitað til fingrafarasérfræðings sem sagði að fingraför Gunnars hafi fundist á haglabyssunni. Gunnar hafði sjálfur sagt að skotinu hafi verið hleypt af fyrir slysni þegar Gísli hafi gripið í byssuna og til átaka kom.

Fingrafarasérfræðingurinn, Tore Andre Walstad, sagði að ekki hafi tekist að greina fingraför Gísla á byssunni. Það sé þó ekki hægt að útiloka það að Gísli hafi reynt að ýta byssunni burt án þess að fingraför hafi orðið eftir á henni.


Tengdar fréttir

Strax ljóst að Gísla yrði ekki bjargað

Yfirlögregluþjónn sem var fyrstur á vettvang nóttina sem Gísli Þór Þórarinssyni var ráðinn bani í norska bænum Mehamn í apríl segir að strax hafi verið útséð að Gísla yrði ekki bjargað.

„Ég verð skugginn þinn þangað til þú hengir þig“

Gunnar Jóhann Gunnarsson segir að sér hafi ekki dottið í hug að nota neitt annað en haglabyss til að hræða hálfbróður sinn Gísla Þór Þórarinsson. Edel Olsen, réttargæslumaður íslenskra aðstandenda Gísla, spurðist fyrir um þetta í dómsal í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×