Erlent

Staðfestu tæplega þrjátíu ára gamalt kuldamet á Grænlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Við Grænlandsstrendur. Metkuldinn mældist hátt á Grænlandsjökli í desember árið 1991.
Við Grænlandsstrendur. Metkuldinn mældist hátt á Grænlandsjökli í desember árið 1991. AP/Brennan Linsley

Alþjóðaveðurfræðistofnunin hefur nú staðfest að -69,6°C sem mældust á sjálfvirkri veðurathugunarstöð á Grænlandi árið 1991 sé mesti kuldi sem mæst hefur á norðurhveli jarðar. Sérfræðingar stofnunarinnar sem fara yfir eldri veðurgögn telja að búnaðurinn og aðferðirnar sem voru notaðar við mælinguna geri hana gjaldgenga.

Nýja kuldametið er 1,8°C lægra en þær -67,8°C sem hafa mælst í tvígang í Síberíu, annars vegar í Verkhojanksk í febrúar árið 1892 og hins vegar í Oimekon í janúar árið 1933.

Haldið er utan um ýmis konar veðuröfgar í gagnabanka Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO), þar á meðal mesta hita, kulda og úrkomu. Í sumum tilfellum finna sérfræðingar hennar löngugleymdar veðurathuganir sem geta veitt mikilvægar upplýsingar um þróun loftslags jarðar. Þeir vinna að því að greina og staðfesta slík gögn.

Mælingin á Grænlandi var gerð á Klinck-mælistöðinni í 3.105 metra hæð nærri hæsta punkti Grænlandsjökuls 22. desember árið 1991, að því er segir í tilkynningu frá WMO. Sjálfvirka veðurstöðin sem mældi kuldann var á vegum Háskólans í Wisconsin vegna rannsókna á Grænlandsjökli og var virk í tvö ár í byrjun 10. áratugsins.

Sérfræðingar WMO þurftu að hafa uppi á vísindamönnunum sem ráku veðurstöðina fyrir tæpum þremur áratugum til þess að geta staðfest metið. Í ljós kom að þeir höfðu haldið samviskusamlega utan um öll gögn sem tengdust mælingunum.

Mesta frost sem mælst hefur á jörðinni er -89,2°C á Vostok-stöðinni á Suðurskautslandinu 21. júlí árið 1983.

Sérfræðingar WMO vinna enn að því að staðfesta hvort að met hafi verið slegið í Verkhojanksk, þar sem eldra kuldametið var sett, þegar þar mældust 38°C í hitabylgju í Síberíu 20. júní. Það gæti verið mesti hiti sem hefur mælst norðan heimskautsbaugs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×