Innlent

Brutu sóttvarnareglur og nú hafa yfir 100 smitast

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason segir að um og yfir 100 manns hafi smitast á tveimur skemmtistöðum í miðbæ Reykjavíkur. Meirihluti þeirra hafi greinst með hið svokallaða Frakkaafbrigði veirunnar. 
Þórólfur Guðnason segir að um og yfir 100 manns hafi smitast á tveimur skemmtistöðum í miðbæ Reykjavíkur. Meirihluti þeirra hafi greinst með hið svokallaða Frakkaafbrigði veirunnar.  Vísir/Vilhelm

Hægt er að rekja um hundrað kórónuveirusmit síðustu daga til tveggja staða með vínveitingaleyfi í miðbæ Reykjavíkur að sögn sóttvarnalæknis. Langflest tilfellin sem hafa komið upp eru af sama afbrigði veirunnar og tveir franskir ferðamenn greindust með í ágúst. 

Af þeim þrjátíu sem greindust með veiruna í gær voru fimmtán ekki í sóttkví. Alls eru 242 í einangrun og tveir á sjúkrahúsi. 2102 eru í sóttkví. Þetta kom fram á upplýsingafundi Almannavarna og Landlæknis í dag.

Síðustu fimm daga hafa 196 greinst með kórónuveiruna sem veldur Covid 19. Fram hefur komið að hægt sé að rekja flest smitin til tveggja veitingastaða í miðbæ Reykjavíkur; Irishman og Brewdog.

„Bróðurpartur þessara smita síðustu daga er uppruninn frá þessum tveimur stöðum. Þetta  eru sennilega í kringum eitt hundrað manns eða rúmlega það,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Þórólfur segir að þrjú afbrigði veirunnar séu nú í gangi. Afbrigðin sem hafi verið einna mest áberandi séu hin svokallaða Akranesveira og svo Frakkaveira.

„Þessi Frakkaveira, sem við getum kannski kallað svo, er yfirgæfandi svolítið núna,“ segir Þórólfur. Hún hafi fundist á þessum skemmtistöðum.

Afbrigðið er rakið til tveggja franskra ferðamanna sem greindust hér með veiruna um miðjan ágúst, fóru í einangrun en virðast svo ekki hafa fylgt öllum sóttvarnareglum.

„Ég hef upplýsingar um það að erfitt hafi verið að fá þá til að fylgja leiðbeiningum. Meira get ég eiginlega ekki sagt,“ segir Þórólfur.

Þeir sem brjóta sóttvarnareglur geta átt yfir höfði sér 50-250 þúsund króna sekt. Ef reglur um einangrun eru brotnar þá er hægt að sekta viðkomandi um 150-500 þúsund krónur eftir alvarleika brotsins. 

„Það eru sektarákvæði fyrir það að brjóta sóttkví, hvort það eru meiri sektir eða viðurlög við því ef einhver smitast þori ég ekki að segja til um,“ segir Þórólfur.


Tengdar fréttir

Vertinn á Brewdog steinhissa á svari Þórólfs

Andri Birgisson, framkvæmdastjóri Brewdog Reykjavík á Hverfisgötunni, segist hafa fengið létt fyrir hjartað þegar hann fylgdist með upplýsingafundi Embættis landlæknis og almannavarnadeildar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×