Innlent

Spá snjókomu fyrir norðan

Samúel Karl Ólason skrifar
Haustið virðist ætla að skella á Norðurlandi.
Haustið virðist ætla að skella á Norðurlandi. Vísir/Vilhelm

Ört dýpkandi lægð nálgast Ísland úr suðvestri. Henni mun fylgja væta og hvassviðri og verður víða sunna gola eða kaldi og rigning. Í dag gengur í suðvesta og vestan 13-20 m/s og bætir í úrkomu. Í kvöld fer lægðin norðaustur yfir land í kvöld og dregur víða úr vindi og úrkomu. Þó mun hvessa austantil á landinu og fyrir norðan breytist úrkoman í snjókomu á fjallvegum.

Hiti verður 4 til 12 stig en kólna mun í kvöld.

Á morgun spáir Veðurstofa Íslands suðvestlægri eða breytilegri átt 5-13 m/s og skúrum. Sums staðar norðanlands verður þó él eða slydduél. Hiti verður 1 til 8 stig og hlýjast syðst á landinu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag (haustjafndægur):

Norðaustan 10-15 m/s norðvestantil, annars hægari breytileg átt. Víða él eða slydduél um landið norðanvert, en stöku skúrir syðra. Hiti 0 til 6 stig.

Á miðvikudag:

Norðanátt og él um landið norðanvert með hita kringum frostmark. Bjart með köflum sunnan heiða, en stöku skúr framan af degi og hiti að 6 stigum yfir daginn.

Á fimmtudag:

Norðlæg átt og él eða slydduél norðantil, en léttskýjað sunnanlands. Hiti 0 til 7 stig, en víða vægt frost inntil landsins norðantil.

Á föstudag:

Fremur hæg breytileg átt og bjartviðri, en vaxandi suðaustanátt og þykknar upp suðvestantil síðdegis. Hlýnandi veður.

Á laugardag:

Útlit fyrir stífa suðlæga átt, rigningu og milt veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×