Erlent

Breska lögreglan: „Hafnið hátíðahöldum“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Djammið í London. Ef vel er að gáð má sjá sjö manna hóp standa og spjalla saman. Frá og með mánudeginum verður slíkt ekki leyfilegt í borginni.
Djammið í London. Ef vel er að gáð má sjá sjö manna hóp standa og spjalla saman. Frá og með mánudeginum verður slíkt ekki leyfilegt í borginni. Victoria Jones/PA Images via Getty

Lögreglan í Bretlandi hefur varað almenning við því að nýta líðandi helgi til hátíðarhalda og partístands þó að hertar reglur um samkomutakmarkanir taki ekki gildi fyrr en á mánudag.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir Samtökum lögreglumanna að veruleg hætta sé á því að almenningur muni reyna að „nýta sér“ núverandi reglur til þess að skemmta sér saman áður en hinar hertu reglur taka gildi.

Reglurnar sem taka gildi eftir helgi kveða á um að hámarksfjöldi fólks sem kemur saman í Englandi verði sex. Reglurnar munu gilda um alla aldurshópa. Reglurnar voru settar þar sem útlit er fyrir að Bretland gæti farið að „missa stjórn“ á kórónuveirufaraldrinum.

Sektin fyrir fyrsta brot á reglunum nemur 100 Sterlingspundum, eða rúmlega 17.000 krónum. Sektin tvöfaldast svo fyrir hvert brot sem bætist við það fyrsta, þar til hámarki sektarheimildarinnar er náð eftir sex brot. Hámarkið er því 3.200 pund, eða um 560.000 krónur.

Skotar, sem setja sínar eigin sóttvarnareglur, munu þá banna samkomur fleiri en sex innan- sem utandyra. Þó mega einstaklingar af sama heimili vera fleiri saman og reglurnar ná ekki til barna undir 12 ára aldri.

Frá og með mánudeginum verða þá samkomur fleiri en sex innandyra ólöglegar í Wales, að því gefnu að um sé að ræða samkomu fólks af fleiri en einu heimili. Þó mega 30 manns enn hittast utandyra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×