Íslenski boltinn

Jóhannes Karl hæstánægður | Andri ekki til viðtals

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhannes Karl Sigursteinsson stýrði KR til 3-0 sigurs gegn ÍBV.
Jóhannes Karl Sigursteinsson stýrði KR til 3-0 sigurs gegn ÍBV. VÍSIR/VILHELM

Það var kærkominn sigur á Meistaravöllum þegar KR vann ÍBV 3-0 í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í kvöld. 

KR-konur voru frábærar í fyrri hálfleik þar sem þær gengu til búningsherbergja með 2-0 forystu. Seinni hálfleikurinn var síðan heldur rólegri þangað til Alma Mathiesen innsiglaði 3-0 sigur KR.

„Þetta var frábær leikur og mjög kærkomið að fá 3 stig. Við erum neðarlega í töflunni og eftir erfitt tap á móti FH í síðustu umferð var kærkomið að taka sannfærandi sigur,” sagði Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari KR.

Fyrri hálfleikur KR var frábær í alla staði og var Jóhannes mjög ánægður með hvernig liðið mætti í leikinn.

„Við vorum þolinmæðar á boltanum þar sem við tengdum fleiri sendingar og fannst mér við ná að vera fljótari að hugsa og finna þau svæði sem ÍBV var að bjóða okkur upp á og spiluðum við mjög góðan fótbolta með fjöldan allan af færum og góðu spili,” sagði Jóhannes.

„Með 2-0 forystu og í þéttu leikjaplani þá dró af báðum liðum í seinni hálfleik, við þurftum bara að sitja og loka á þau svæði sem ÍBV reyndi að koma sér í og nýta þau tækifæri sem við fengum, sem við gerðum í lok leiks,” sagði Jóhannes um rólegan seinni hálfleik hjá báðum liðum.

Jóhannes var fyrst og fremst ánægður með stigin þrjú og spilamennsku liðsins því hans stelpur eru vel spilandi, sem þær sýndu í dag. Selfoss er næsti leikur KR sem Jóhannes og hans lið eru mjög spennt fyrir og þurfa þær að eiga enn betri leik til að ná þremur stigum þar líka.

Andri Ólafsson, þjálfari ÍBV, gaf ekki kost á sér í viðtal eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×