Innlent

Segir yfirvöld vera að ná taki á faraldrinum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórólfur Guðnason þakkar aðgerðum innanlands og á landamærum að tekist hafi að sveigja hina víðfrægu kúrvu niður.
Þórólfur Guðnason þakkar aðgerðum innanlands og á landamærum að tekist hafi að sveigja hina víðfrægu kúrvu niður. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að yfirvöld hér séu að ná tökum á seinni bylgju kórónuveirufaraldursins. Tekist hafi að sveigja kúrvuna niður og því megi þakka þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til hér innanlands og á landamærum.

Þórólfur sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag hollt að muna að sú staða sem við erum í núna sé fyrst og fremst vegna þessara aðgerða. Því megi ekki gleyma. Auk þess megi skoða stöðuna í því ljósi að víða erlendis er verið að grípa til harðari aðgerða vegna þess að faraldurinn sé í aukningu.

Innanlandssmitum hefur fækkað nokkuð að undanförnu. Ekkert smit mældist síðastliðinn sólarhring hér á landi en hefur verið á bilinu ekkert til sex smit undanfarnar vikur.

Virk smit eru alls 76. Flestir sem eru að greinast eru í sóttkví, um 60 prósent í sóttkví í greiningu. Einn liggur inni á sjúkrahúsi vegna faraldursins.

Þórólfur ítrekaði að ekkert benti til þess að veikindin sem fylgi veirunni nú séu eitthvað vægari en í fyrri bylgju. Það sé að koma í ljós að langtímaáhrif veirunnar séu mikil. Alvarleiki sé því ekki einungis mældur í fjölda þeirra sem hafa látist.

Þórólfur telur líka að skilgreina þurfi hver sé ásættanlegur fjöldi sýkinga hér á landi, hvað sé ásættanlegt að margir leggist inn á sjúkrahús og hvað sé ásættanlegt að margir deyi ef ræða á um hvort hleypa eigi veirunni af stað í samfélaginu. Þetta séu erfiðar spurningar sem flestir treysti sér ef til vill ekki að svara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×