Körfubolti

Varnartilþrif Hardens vógu þungt og Butler sýndi stáltaugar á vítalínunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
James Harden fagnar eftir nauman sigur Houston Rockets á Oklahoma City Thunder í oddaleik.
James Harden fagnar eftir nauman sigur Houston Rockets á Oklahoma City Thunder í oddaleik. getty/Mike Ehrmann

Leikir næturinnar í NBA-deildinni í körfubolta voru æsispennandi og unnust báðir með aðeins tveimur stigum.

Houston Rockets tryggði sér sæti í undanúrslitum Vesturdeildarinnar með sigri á Oklahoma City Thunder í oddaleik, 104-102. Þá komst Miami Heat í 2-0 í einvíginu gegn Milwaukee Bucks í undanúrslitum Austurdeildarinnar með 114-116 sigri í leik liðanna í nótt.

James Harden hitti illa fyrir Houston en reyndist hetja liðsins þegar hann varði þriggja stiga skot Lus Dort þegar tæpar fimm sekúndur voru eftir af leiknum. 

Harden skilaði sautján stigum en hitti aðeins úr fjórum af fimmtán skotum sínum utan af velli. Robert Covington var stigahæstur í liði Houston með 21 stig. Russell Westbrook skoraði 20 stig gegn sínu gamla liði. Houston mætir Los Angeles Lakers í undanúrslitum Vesturdeildarinnar.

Dort skoraði 30 stig fyrir Oklahoma sem er persónulegt met hjá honum. Chris Paul og Shai Gilgeous-Alexander skoruðu nítján stig hvor. Paul tók einnig ellefu fráköst og gaf tólf stoðsendingar.

Jimmy Butler tryggði Miami sigur á Milwaukee með því að setja niður tvö vítaskot eftir að leiktíminn var runninn út. Miami er því komið í 2-0 í einvíginu gegn liðinu sem var með besta árangur allra liða í deildarkeppninni.

Miami var sex stigum yfir þegar 27 sekúndur voru eftir en glutraði forystunni niður. Það kom þó ekki að sök. Giannis Antetokounmpo braut á Butler undir blálokin og sá síðarnefndi kláraði leikinn á vítalínunni.

Goran Dragic skoraði 23 stig fyrir Miami og Tyler Herro sautján. Butler skoraði þrettán stig en hann tók aðeins átta skot í leiknum.

Antetokounmpo var stigahæstur í liði Milwaukee með 29 stig. Hann tók einnig fjórtán fráköst. Khris Middleton skoraði 23 stig og gaf átta stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×