Erlent

Aftur gerð að konung­legri frillu Taí­lands­konungs

Atli Ísleifsson skrifar
Vajiralongkorn Taílandskonungur og Sineenat Wongvajirapakdi.
Vajiralongkorn Taílandskonungur og Sineenat Wongvajirapakdi. AP

Sineenat Wongvajirapakdi hefur aftur hlotið titilinn „konungleg frilla“ Taílandskonungs, nærri ári eftir að hafa verið svipt titlunum í kjölfar þess að það kastaðist í kekki milli þeirra.

Taílenskir fjölmiðlar segja Vajiralongkorn konung hafa veitt Sineenat titilinn á ný í dag.

Sineenat var svipt titlum sínum í október 2019, fáeinum mánuðum eftir að hafa hlotið þá. Var sagt að henni hafi með því verið refsað fyrir að reyna að setja sig á sama stall og drottningin. Hún hafi ekki sýnt næga hollustu, verið óþakklát og of metnaðargjörn.

Hin 34 ára Sineenat var fyrst til að fá titilinn „konungleg frilla“ í Taílandi í nærri heila öld. Hún er frá norðurhluta landsins og starfaði sem hjúkrunarfræðingur áður en hún hóf ástarsamband við þáverandi krónprins landsins, Vajiralongkorn prins.

Með tímanum starfaðu hún svo sem „lífvörður“ prinsins og sem flugmaður innan taílenska hersins. Snemma árs 2019 var hún gerð að hershöfðinga.

Sumarið 2019 var hún svo skipuð „konungleg frilla“, fáeinum mánuðum eftir að konungurinn gekk að eiga Suthidu drottningu. Suthida er fjórða eiginkona konungsins.

Vajiralongkorn varð konungur Taílands árið 2016, eftir að faðir hans, Bhumibol konungur, lést.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×