Körfubolti

Paul í aðalhlutverki þegar Oklahoma knúði fram oddaleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Reynsla Chris Paul vóg þungt undir lokin í sigri Oklahoma City Thunder á Houston Rockets í nótt.
Reynsla Chris Paul vóg þungt undir lokin í sigri Oklahoma City Thunder á Houston Rockets í nótt. getty/Mike Ehrmann

Oklahoma City Thunder tryggði sér oddaleik í einvíginu gegn Houston Rockets í átta liða úrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar með sigri, 104-100, í sjötta leik liðanna í nótt.

Chris Paul skoraði 28 stig gegn sínum gömlu félögum og Danilo Gallinari skoraði 25 stig. Paul var sérstaklega mikilvægur á lokasprettinum og skoraði átta af síðustu tólf stigum Oklahoma. Alls skoraði hann fimmtán stig í 4. leikhluta.

James Harden var með 32 stig, átta fráköst og sjö stoðsendingar í liði Houston. Robert Covington skoraði átján stig og Russell Westbrook sautján.

Jimmy Butler setti persónulegt met í úrslitakeppni þegar hann skoraði 40 stig í sigri Miami Heat á Milwaukee Bucks, 104-115, í undanúrslitum Austurdeildarinnar.

Fjórtán af 40 stigum Butlers í leiknum í nótt komu í 4. leikhluta þar sem Miami fékk aðeins á sig átján stig. Goran Dragic skoraði 27 stig og Bam Adebayo var með tólf stig, sautján fráköst og sex stoðsendingar.

Khris Middleton var stigahæstur í liði Milwaukee með 28 stig. Brook Lopez skoraði 24 stig og Giannis Antetokounmpo var með átján stig, tíu fráköst og níu stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×