Körfubolti

Murray skoraði 50 stig þegar Denver tryggði sér oddaleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jamal Murray hefur verið óstöðvandi í úrslitakeppninni.
Jamal Murray hefur verið óstöðvandi í úrslitakeppninni. getty/Kevin C. Cox

Jamal Murray skoraði 50 stig þegar Denver Nuggets vann Utah Jazz, 107-119, í átta liða úrslitum Vesturdeildar NBA í nótt. Með sigrinum tryggði Denver sér oddaleik í einvíginu.

Þetta var í annað sinn í einvíginu sem Murray skorar 50 stig og þriðji leikurinn í röð þar sem hann skorar 40 stig eða meira. Hann er fyrsti leikmaðurinn síðan Allen Iverson 2001 sem afrekar það.

Murray setti niður níu þriggja stiga skot í tólf tilraunum og skoraði 21 stig í 4. leikhluta. Nikola Jokic skoraði 22 stig og gaf átta stoðsendingar.

Donovan Mitchell, leikmaður Utah Jazz, hélt uppteknum hætti og skoraði 44 stig. Hann er með 37,6 stig að meðaltali í leik í úrslitakeppninni. Líkt og Murray skoraði hann níu þriggja stiga körfur í leiknum í nótt.

Kawhi Leonard átti frábæran leik þegar Los Angeles Clippers tryggði sér sæti í undanúrslitum Vesturdeildarinnar með sigri á Dallas Mavericks, 97-113.

Leonard skoraði 33 stig, tók fjórtán fráköst, gaf sjö stoðsendingar og stal boltanum fimm sinnum. Hann er fyrsti leikmaðurinn síðan Gary Payton fyrir 20 árum sem skilar viðlíka tölfræði í leik í úrslitakeppninni.

Marcus Morris, leikmaður Clippers, var rekinn af velli fyrir ljótt brot á Luka Doncic, besta manni Dallas. Morris braut einnig illa á Doncic í síðasta leik.

Eftir þann leik sagðist Morris ekki vera grófur leikmaður en hann sýndi það ekki beint í verki í gær.

Doncic átti stórleik, skoraði 38 stig, tók níu fráköst og gaf níu stoðsendingar. Í frumraun sinni í úrslitakeppninni skoraði Slóveninn 31,0 stig, tók 9,8 fráköst og gaf 8,7 stoðsendingar.

Boston Celtics vann öruggan sigur á meisturum Toronto Raptors í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Austurdeildarinnar, 94-112.

Boston hefur unnið fjóra af fimm leikjum sínum gegn Toronto á þessu tímabili og unnið báða leiki liðanna í Orlando með samtals 40 stigum.

Allir í byrjunarliði Boston skoruðu þrettán stig eða meira í leiknum í gær. Jayson Tatum og Marcus Smart voru stigahæstir hjá Boston með 21 stig hvor. Kyle Lowry skoraði sautján stig og gaf átta stoðsendingar í liði Toronto.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×