Viðskipti innlent

Telur brúarlánin hafa verið dauðadæmd frá upphafi

Birgir Olgeirsson skrifar
Kristrún Frostadóttir aðalhagfræðingur Kviku banka.
Kristrún Frostadóttir aðalhagfræðingur Kviku banka. Vísir/Baldur Hrafnkell

Aðalhagfræðingur Kvikubanka segir brúarlánin hafa verið dauðadæmd frá upphafi. Fyrirtæki muni ekki vilja bjarga sér frá tekjutapi með aukinni skuldsetningu. Styrki þurfi til að laga stöðuna.

Kristrún Mjöll Frostadóttir aðalhagfræðingur Kvikubanka, skrifaði grein í vikunni þar sem hún fjallaði um þá bjargbrún sem 30 þúsund einstaklingar stefndu fram af um mánaðarmótin vegna kjaraskerðinga sem þeir yrðu fyrir.

Þessi hópur hafði verið á uppsagnafresti og tekjutengdum bótum og sá fram á mikinn tekjumissi. Ríkið hafi hins vegar rétt hlut þeirra með því að framlengja hlutabótaleiðina og lengja tímabil tekjutendra atvinnuleysisbóta í sex mánuði.

Kristrún ræddi þessi mál í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þar sem hún fór yfir stöðu fyrirtækja.

Í vikunni kom fram í máli Seðlabankastjóra að aðeins eitt brúarlán hefði verið veitt og sagði Kristrún að það hefði verið viðbúið.

„Flest fyrirtæki sem vantar pening í dag, þau vantar pening vegna þess að þau lentu í tekjutapi. Og það að skuldsetja sig fyrir tekjutapi það bara meikar engan veginn sens. Vandinn með brúarlánin lá fyrir algjörlega frá upphafi. Það var ekki lánsfjármögnun sem vantaði. Það vantaði eigið fé inn, það vantaði styrki inn. Ef að þú ætlar að fara í þá vegferð þá var það alltaf það sem til þurfti. Þetta var að mínu mati dauðadæmt frá upphafi með þessu brúarlán. Það hefur sýnt sig algjörlega núna að það skiptir engu máli hvað peningastefnan gerir ef fólk hefur ekki áhuga á því að taka lán og það sér ekki út fyrir óvissu,“ sagði Kristrún en hlusta má á viðtalið allt í heild sinni hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×