Erlent

Sjokk, sorg og þakklæti eftir andlát „konungsins af Wakanda“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Chadwick Boseman var 43 ára gamall.
Chadwick Boseman var 43 ára gamall. Getty/Gareth Cattermole

Hollywood er í sárum eftir að tilkynnt var um óvænt andlát bandaríska leikarans Chadwick Boseman. Hann lést úr krabbameini aðeins 43 ára gamall.

Í frétt BBC segir að hann hafi látist af völdum krabbameins í ristli sem hann hafi glímt við undanfarin fjögur ár. Hann hafði hins vegar aldrei greint frá því að hann væri með krabbamein, og því kemur andlát hans mörgum samstarfsfélögum hans og aðdáendum mjög á óvart.

„Hann var indæl sál og ótrúlegur listamaður, sem mun vera með okkur til eilífðar í gegnum einstakar frammistöður hans á þessum stutta en glæsilega ferli. Guð blessi Chadwick Boseman,“ hefur AP eftir leikaranum Denzel Washington.

Chadwick var best þekktur fyrir leik sinn í Marvel-myndinni Black Panther, þar sem hann lék aðalsöguhetjuna. Myndin braut blað í sögu hinna svokölluðu ofurhetjumynda þegar hún var tilnefnd sem besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðinni á síðasta ári. Chadwick lék titilhlutverk myndarinnar en persóna hans var konungur tilbúna ríkisins Wakanda

„Ég er algjörlega í sárum. Þetta er ótrúlega sorglegt. Chadwick var sérstakur, algjörlega einstakur. Hann var mjög einbeittur leikari og forvitinn listamaður. Hann átti eftir að skapa svo mikið af undursamlegri list. Ég er endalaust þakklátur fyrir vináttu okkar. Hvíldu í krafti, konungur,“ skrifar Chris Evans, sem lék Captain America í fjölmörgum Marvel-myndum.

Meðal þeirra sem minnast Chadwick er Kamala Harris, varaforsetaefni Demókrata, sem segist vera í hjartasorg, en hér að neðan má sjá viðbrögð ýmissa leikara og annars frægðarfólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×