Íslenski boltinn

Ólafur: Kom öllum á óvart sem horfðu á þetta í Stúkunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valdimar Þór Ingimundarson kemur Fylki í 2-0 gegn Fjölni. Hann er ekki á förum frá Fylki að sögn þjálfara liðsins.
Valdimar Þór Ingimundarson kemur Fylki í 2-0 gegn Fjölni. Hann er ekki á förum frá Fylki að sögn þjálfara liðsins. vísir/vilhelm

Ólafur Stígsson, annar þjálfara Fylkis, var sáttur með sína menn eftir sigurinn á Fjölni, 2-0, í kvöld.

„Mér fannst þetta heilt yfir sanngjarn sigur. Við vorum töluvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og áttum að skora nokkur mörk þá. Við komum líka nokkuð sterkir inn í seinni hálfleikinn og náðum marki,“ sagði Ólafur í samtali við Vísi að leik loknum.

„Svo féllum við aðeins til baka og þeir lágu á okkur. Þeir fengu ágætis færi og Aron [Snær Friðriksson] varði einu sinni mjög vel. En það er s.s. hans hlutverk að vera til staðar. Ég er mjög ánægður.“

Ólafur fannst sínir menn spila af miklum krafti í leiknum. „Ákefðin var mjög há. Svo var gott flæði á boltanum. Ég er ánægður með það og baráttuna í strákunum.“

Líkt og í síðasta leik Fylkis, 1-1 jafntefli við Stjörnuna, skoraði Ásgeir Eyþórsson með skalla eftir hornspyrnu Daða Ólafssonar frá hægri.

„Ásgeir var einmitt búinn að tala um að hann væri ekkert búinn að skora í sumar. Það var kominn tími á hann og gaman að hann skori í tveimur leikjum í röð,“ sagði Ólafur.

Valdimar Þór Ingimundarson skoraði annað mark Fylkis á 89. mínútu. Í Pepsi Max Stúkunni á Stöð 2 Sport í gær sagði Guðmundur Benediktsson að möguleiki væri á að Valdimar væri á förum frá Fylki. Ólafur segir að Fylkismenn hafi komið af fjöllum þegar Guðmundur varpaði þessu fram.

„Það liggur ekkert fyrir þar. Þetta kom öllum á óvart sem horfðu á þetta í Stúkunni,“ sagði Ólafur sem á ekki von á öðru en að Valdimar klári tímabilið með Fylki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×