Guðfinna Ólafdsóttir, formaður Félags eldri borgara á Selfossi hefur áhyggjur af því fólki sem hefur einangrast eða er að einangrast vegna kórónuveirunnar. Sveitarfélagið Árborg er nú með átaksverkefni í gangi til að sporna við félagslegri einangrun eldri borgara.
Einn liður í átaki Árborgat til að koma í veg fyrir einangrun eldri borgara vegna kórónuveirunnar fór fram í vikunni en þá var eldri borgurum í sveitarfélaginu boðið í menningargöngu um nokkrar af elstu götunum á Selfossi þar sem saga húsanna í götunum var sögð.

Um 100 manns mættu í gönguna en passað var vel upp á tveggja metra fjarlægðina á milli göngufélaga. Guðfinna Ólafsdóttir, formaður félags eldri borgara tók þátt í göngunni.
„Þetta getum við þakkað Ásmundi Einari Daðasyni, félagsmálaráðherra, sem úthlutaði sveitarfélögunum dágóðri upphæð til þess að rjúfa einangrun eldri borgara í Covid og þetta er hluti af því. Það var mjög gaman í göngunni því það hefur þurft að fella niður ferðir hjá okkur, það átti t.d. að fara í Þjórsárdal en það var ekki tekin áhættan á því. Þetta var ljómandi skemmtilegt og fróðleg ganga.“

En hvað með Covid og eldri borgara og einangrun þeirra, hvernig heldur Guðfinna að staðan sé?
„Já, það er náttúrulega svolítiðið erfið staða. Að öllu jöfnu hefðum við átt að hefja vetrarstarfið seint í næsta mánuði, ég veit ekki alveg hvernig þetta verður, ég held að fólk sé svolítið að loka sig inni en við erum að reyna að gera eitthvað fyrir það. Það hefur verið hringt í fólk til að athuga stöðuna á því og svo náttúrulega agalegt hjá þeim sem eiga ekki spjaldtölvu eða önnur snjalltæki og geta ekki fylgst með, það er bara orðið nauðsynlegt í dag, við höfum verið að reyna að kenna fólki á þessi tæki.“
Guðfinna segir að það sé mjög slæmt ef eldra fólk lokar sig alfarið inni og einangrast á heimilum sínum, sem hún heldur að sé meira um en fólk áttar sig almennt á.
„Já, ég er svolítið hrædd um það, það hefur verið lögð mikil áhersla á að vernda okkur eldri borgara og þá er náttúrulega eðlilegt að fólk fari að hafa áhyggjur. Við reynum að halda vel utan um okkar fólk eins og við getum.“
