Hilmar Örn Jónsson bætti Íslandsmet sitt í sleggjukasti á Origo móti FH í Kaplakrika fyrr í dag. Hilmar kastaði lengst 75,82 metra og bætti Íslandsmet sitt um rúman hálfan metra. Fyrra met Hilmars var 75,26 metrar sem hann setti út í Bandaríkjunum í apríl í fyrra.
Hilmar hefur kastað vel í sumar og á þónokkur köst í kringum 75 metra. Árangur Hilmars er sá átjándi besti í heiminum í ár og haldi hann sama dampi á næstu mánuðum er hann líklegur til þess að komast inn á Ólympíuleikana. Ólympíuleikarnir fara fram í Tókýó sumarið 2021 og til þess að komast þangað þarf Hilmar að vera meðal 32 efstu á heimslistanum.