Innlent

Tíu sýni neikvæð og von á tveimur niðurstöðum til viðbótar

Andri Eysteinsson skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra. Vísir/Vilhelm

Tíu sýni sem tekin hafa verið og prófuð fyrir kórónuveirusmiti í dag hafa reynst neikvæð. Enn er unnið að prófunum á tveimur sýnum til viðbótar og er niðurstöðu úr þeim greiningum að vænta í kvöld. Þetta staðfestir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra við Vísi.

Alls hafa 95 sýni verið greind og hingað til hefur aðeins eitt reynst jákvætt fyrir smiti. Hinn smitaði, karlmaður á fimmtugsaldri er enn í einangrun á Landspítalanum. Manninum heilsast vel og sýnir dæmigerð einkenni sjúkdómsins, hósta, hita og beinverki.

Á annað hundrað Íslendinga komu til landsins í gær með flugi frá Veróna, sem er innan skilgreinds hættusvæðis á Norður-Ítalíu. Tveir farþegar sýndu flensueinkenni við komuna en ekki er ljóst hvort unnið hafi verið úr sýnum þeirra.

Karlmaðurinn greindist með kórónuveirusmit reyndist hafa smitast í ferð sinni til Ítalíu. Sýni tekið úr eiginkonu mannsins hefur verið rannsakað og reyndist það neikvætt fyrir smiti.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×