Erlent

Tveimur eldflaugum skotið frá Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un fylgdist nýverið með æfingu stórskotaliðs.
Kim Jong Un fylgdist nýverið með æfingu stórskotaliðs. AP/KCNA

Tveimur eldflaugum var skotið á loft frá Norður Kóreu í nótt. Svo virðist sem forsvarsmenn einræðisríkisins ætli að halda bönnuðum tilraunum áfram eftir nokkurra mánaða hlé á eldflaugaskotum.

Her Suður-Kóreu segir eldflaugarnar hafa flogið um 240 kílómetra og náð um 35 kílómetra hæð. Verið sé að greina skotin með hjálp Bandaríkjanna en í yfirlýsingu frá herforingjaráði Suður-Kóreu segir ekki hvort um sé að ræða langdrægar eldflaugar eða ekki.

Yfirvöld Norður-Kóreu skutu alls þrettán sinnum eldflaugum á loft í fyrra og voru þær nánast af öllum gerðum. Meðal annar var eldflaugum skotið úr kafbát og voru tilraunir gerðar með skammdrægar eldflaugar, samkvæmt Yonhap fréttaveitunni í Suður-Kóreu.

Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hefur heitið því að fjölga kjarnorkuvopnum ríkisins og betrumbæta þau, vegna hlés á viðræðum einræðisríkisins og Bandaríkjanna, þar sem hvorki hefur gengið né rekið.

Síðustu vopnatilraunir Norður-Kóreu voru framkvæmdar þann 28. nóvember og hafa sérfræðingar velt vöngum yfir því hvort Covid-19 komi þar að með einhverjum hætti. Ríkisstjórn Kim hefur ekki staðfest eitt tilfelli sjúkdómsins þar í landi þó ríkismiðlar hafi gefið í skyn að fólk hafi verið sett í sóttkví og að veiran hafi fyrst fundist í Kína og sé útbreidd í Suður-Kóreu.

Gripið hefur verið til umfangsmikilla forvarnaraðgerða í Norður-Kóreu og hefur landamærum ríkisins verið lokað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×