AC Milan missti af mikilvægum stigum þegar liðið tapaði 2-1 á heimavelli gegn Genoa sem þar með komst upp úr fallsæti í ítölsku A-deildinni í fótbolta.
Genoa komst í 2-0 í fyrri hálfleik með mörkum frá Goran Pandev og Francesco Cassata. Zlatan Ibrahimovic klóraði í bakkann fyrir heimamenn á 77. mínútu.
Milan er því með 36 stig í 7. sæti, þremur stigum á eftir Napoli, en Genoa kom sér upp í 17. sæti með 25 stig og betri markatölu en Lecce sem er komið í fallsæti.
Þrátt fyrir að íþróttamálaráðherra Ítalíu hafi þrýst á að ítalskur fótbolti verði settur á ís næstu vikurnar vegna kórónuveirunnar þá er spilað í A-deildinni í dag. Óvíst er hvað gerist á morgun og boðað hefur verið til neyðarfundar á þriðjudag til að fara yfir stöðuna og svo gæti farið að þá verði gert hlé á deildinni út þennan mánuð.
Leikmannasamtökin á Ítalíu vilja að hlé verði gert á fótbolta í landinu og munu vera að undirbúa verkfallsaðgerðir ef til þarf.
SPAL vann Parma 1-0 á útivelli í hádeginu í leik sem var frestað um stutta stund vegna óvissu sem skapaðist um hvort leikið yrði í dag. Sampdoria vann 2-1 sigur á Hellas Verona.
Í kvöld mætast Juventus og Inter í stórleik sem gæti ráðið miklu í toppbaráttu deildarinnar, en liðin eru í 2. og 3. sæti.
