Íbúi á Hrafnistu heyrir daglega í fjölskyldu sinni í síma meðan á heimsóknarbanni stendur vegna kórónuveirunnar. Bannið stendur eins lengi og þurfa þykir og segist íbúinn líta jákvætt á lífið og tilveruna meðan það varir.
Heimsóknarbann er við lýði á spítölum og hjúkrunarheimilum til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Er það gert á meðan neyðarstig almannavarna er í gildi og mögulega lengur.
Á Hrafnistu fá íbúar ekki að sjá fjölskyldur sínar á meðan banninu stendur. Valdís Daníelsdóttir er hæstánægð með viðbrögð forsvarsmanna Hrafnistu.
„Ég tala við þau í síma. Þetta er allt í lagi, við getum ekkert ráðið við þetta hvort sem er. Þetta er eina ráðið. Við erum pössuð svo vel hérna,“ segir Valdís Daníelsdóttir, íbúi á Hrafnistu. Hún segir ættingja ekki hafa miklar áhyggjur af heimsóknarbanninu.
„Þeir sætta sig við það. Þeir tala við mig í síma og það nægir alveg, eða við látum það nægja. Svo bara kemur hitt þegar það er búið, ef það klárast. Maður veit það ekki.“
Og hún segir litla hættu á að þau fái leið á hvort öðru á Hrafnistu á meðan banninu stendur.
„Nei alls ekki. Þið fáið það aldrei hjá mér að ég sé leið hérna. Mér finnst þetta yndislegt, mér líður svo vel hérna.“
Heyrir daglega í fjölskyldu sinni í gengum síma vegna heimsóknarbanns
Tengdar fréttir

Fjöldi ríkja setur á samkomubann vegna veirunnar
Fjöldi Evrópuríkja ræðir nú um eða hefur sett á samkomubann vegna áframhaldandi útbreiðslu nýju kórónuveirunnar. Markaðir víða um heim voru í frjálsu falli í dag.

Fresta aðalfundi Félags eldri borgara vegna kórónuveirunnar
Félag eldri borgara hefur ákveðið að fresta aðalfundi félagsins sem átti að fara fram fimmtudaginn 12. mars. Þetta var ákveðið á stjórnarfundi félagsins í dag.

Fimm tilfelli kórónuveirunnar bætast við
Fimm smit kórónuveirunnar hér á landi hafa greinst til viðbótar eftir hádegi í dag.