Erlent

Hleypur undir bagga með bróður sínum og fær meiri völd

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Yo Jong, systir Kim Jong Un og nú næstráðandi Norður-Kóreu.
Kim Yo Jong, systir Kim Jong Un og nú næstráðandi Norður-Kóreu. EPA/Jorge Silva

Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hefur veitt systur sinni Kim Yo Jong og öðrum nánum ráðgjöfum aukin völd varðandi stjórn ríkisins. Með því vill Kim draga úr því álagi sem hann er undir og sömuleiðis vill hann draga úr eigin ábyrgð ef eitthvað kemur upp á. Þetta kom fram í skýrslu frá leyniþjónustu Suður-Kóreu sem var kynnt þingmönnum þar í landi í nótt.

Í frétt Yonhap fréttaveitunnar segir að Kim haldi enn einræðisvöldum sínum og hann sé ekki að velja sér erfingja. Hann hafi fengið systur sína og aðra til að hlaupa undir bagga með sér.

Yo Jong tók að sér mest öll völdin sem Kim gaf frá sér og sérstaklega þau sem snúa að stjórn ríkisins. Þeir Pak Pong Ju, aðstoðarformaður landsnefndar Norður-Kóreu, og Kim Tok Hun, nýr forsætisráðherra, tóku að sér völd varðandi efnahagsstjórn landsins.

Áður hafði Yo Jong tekið að sér samskipti ríkisins við Suður-Kóreu, þar sem mikil harka hefur færst í leikana síðan þá. Hún hefur að undanförnu verið að taka að sér meiri völd og skipa sér stærri sess í ríkisstjórn landsins. Í rauninni er hún nú næstráðandi Norður-Kóreu.

Hún þykir þar að auki líklegust til að taka við stjórn landsins ef Kim félli frá skyndilega.

Miklar vangaveltur um hver tæki við af Kim fóru af stað þegar hann hvarf af sjónarsviðinu í vor. Einhverjir töldu einræðisherrann hafa fallið frá en svo er ekki.

Sjá einnig: Ráðamenn í Norður-Kóreu ítrekað ranglega sagðir dánir

Í skýrslu Leyniþjónustu Suður-Kóreu er einnig tekið fram að heræfingum í Norður-Kóreu hafi verið fækkað verulega. Þeim hafi verið fækkað um 25 til 65 prósent á milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×