Erlent

Áströlum ekki skylt að bólusetja sig gegn COVID-19

Andri Eysteinsson skrifar
Scott Morrison forsætisráðherra Ástralíu.
Scott Morrison forsætisráðherra Ástralíu. Vísir/AP

Til að fyrirbyggja misskilning hafa áströlsk stjórnvöld greint frá því að íbúum landsins verði ekki skylt að láta bólusetja sig gegn COVID-19 þegar þar að kemur. Forsætisráðherra landsins, Scott Morrison hafði gefið slíkt í skyn þegar hann greindi frá samningi ástralskra stjórnvalda við lyfjafyrirtækið AstraZeneca.

Bóluefnið sem um ræðir er þróað af AstraZeneca og vísindamönnum við Oxford háskóla og er eitt þeirra fimm bóluefna sem talin eru líkleg til þess að ná inn á framhaldsstig klínískra rannsókna á virkni þess.

Morrison hafði sagt að ef bóluefnið myndi reynast árangursríkt myndu Ástralir framleiða það sjálfir og dreifa til allra 25 milljón íbúa landsins þeim að kostnaðarlausu. Sagði ráðherrann þá í útvarpsviðtali að enn væri verið að skapa stefnu landsins í þessum málum en að eingöngu yrði heimilt að sleppa bólusetningu vegna heilsufarsvandamála.

Nú hefur Morrison dregið þau ummæli til baka og segir að ekki verði skylt að gangast undir bólusetningu í landinu. BBC hefur þá eftir heilbrigðisráðherrann Greg Hunt að ekki sé hægt að útiloka að öllum þeim sem koma til landsins verði gert skylt að bólusetja sig sé það vilji sérfræðinga.

Myndi það fyrirkomulag eiga við um ferðamenn og Ástrali á heimleið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×